Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði ökumann bifreiðar á Vesturlandsvegi á níunda tímanum í gærkvöldi eftir að bifreið hans mældist á 143 kílómetra hraða.
Leyfilegur hámarkshraði þarna er 80 kílómetrar á klukkustund og á ökumaðurinn von á 180 þúsund króna sekt, samkvæmt vef lögreglunnar. Að sögn lögreglu neitaði maðurinn þó fyrir brotið.
Lögregla hafði í mörg horn að líta í gærkvöldi og í nótt og hafði hún afskipti af þó nokkrum ökumönnum sem höfðu neytt áfengis eða fíkniefna.
Skömmu eftir miðnætti var maður í annarlegu ástandi handtekinn í Hafnarfirði. Hann var mjög æstur, að sögn lögreglu, og hafði verið að ógna fólki. Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu vegna málsins.
Þá var maður í annarlegu ástandi handtekinn í Breiðholti. Hann var á stigagangi húss þar sem hann var óvelkominn og fór ekki að fyrirmælum lögreglu. Hann var vistaður í fangaklefa vegna málsins.
Loks handtók lögregla mann í annarlegu ástandi í Mosfellsbæ en hann er grunaður um hótanir, líkamsárás og brot á reglugerð um skotelda. Hann var vistaður í fangaklefa vegna málsins.