Umhverfisráðherra hefur farið í 21 utanlandsferð árin 2016 til 2019 á vegum ráðuneytisins. Rétt er að taka fram að þrír ráðherrar hafa gegnt embætti á þessum tíma og tók Guðmundur Ingi Guðbrandsson við embætti seint á árinu 2017.

Þetta kemur fram í svari umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Sæmundssyni, þingmanni Miðflokksins, um utanlandsferðir á vegum ráðuneytisins. Ekki er sundurliðað hversu margar ferðir Guðmundur Ingi hefur farið.

Aðilar í yfirstjórn umhverfisráðuneytisins fóru í 32 utanlandsferðir og almennir starfsmenn ráðuneytisins í 340 utanlandsferðir. Bent er á að þar sem árið 2019 er ekki liðið er fjöldi ferða á árinu 2019 einungis hluti úr ári í flestum tilvikum.

Allar flugferðir hafa verið kolefnisjafnaðar að sögn Guðmundar Inga. Losun ársins 2019 verður kolefnisjöfnuð þegar endanlegar niðurstöður liggja fyrir í árslok.

„Samkvæmt aðgerðaáætlun ráðuneytisins í umhverfismálum er gert ráð fyrir árlegri gróðursetningarferð starfsmanna til jöfnunar losunar frá starfsemi ráðuneytisins. Þess má geta að vorið 2019 var ákveðið að gróðursetja tvöfalt fleiri plöntur en þurfti til að kolefnisjafna losun ársins 2018 til samræmis við loftslagsstefnu Stjórnarráðsins,“ segir Guðmundur Ingi.

Þorsteinn spurði Guðmund Inga hvort fjarfundabúnaður væri í ráðuneytinu og stofnunum þess og hversu margir fundir hafi verið haldnir þannig með aðilum í útlöndum.

Guðmundur Ingi sagði að almennt væri ekki haldið utan um fjölda slíkra funda en að ráðuneytið legði áherslu á að starfsmenn velji fjarfund væri þess kostur. Búnaðurinn sé misjafn að gerð; allt frá því að vera fundahugbúnaður á einstaka tölvum starfsmanna með tengingu í gegnum vefmyndavél, yfir í það að vera fastur fundabúnaður í fundarsal sem hýst getur stóra fundi með þátttöku margra.

Starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs fóru í 12 utanlandsferðir á árunum 2016-2019 og héldu enga fjarfundi. Starfsmenn Umhverfisstofnunar fóru í 518 utanlandsferðir á tímabilinu en héldu 798 fjarfundi.

Svör stofnana:

Landmælingar Íslands: 20–30 á ári.

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum: um 25–30 yfir tímabilið 2016-2019.

Skógræktin: nokkrir tugir á ári.

Stofnun Vilhjálms Stefánssonar: um 40–50 ári.

Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn: um 24 á ári.

Skipulagsstofnun: nokkrir fundir á ári..

Náttúrufræðistofnun Íslands: 15–20 fundir árlega.

Úrvinnslusjóði: allmargir fundir.

Veðurstofu Íslands: fjöldi funda á hverju ári.

Íslenskum orkurannsóknum: fjölmargir fundir í hverri viku.

Vatnajökulsþjóðgarðs og Úrskurðarnefndar umhverfisog auðlindamála: engir slíkir fundir hafi verið haldnir.

Umhverfisstofnunar: 138 árið 2016, 155 árið 2017, 234 árið 2018 og 271 til 22. október 2019.

Frétt uppfærð kl. 20:54.