Tuttugu og þrjú stjórnarþingmál voru lögð fram á Alþingi í gær.  Flest þeirra eru frá umhverfis- og auðlindaráðherra, sem leggur meðal annars fram tillögu um staðsetningu vindorkuvera í landslagi og náttúru Íslands, frumvarp um málsmeðferð virkjunarkosta þar að lútandi og  frumvarp um loftslagsmál og markmið um kolefnishlutleysi.

Dómsmálaráðherra hefur lagt fram um breytingar á almennum hegningarlögum varðandi barnaníðsefni og breytingar á sakamálalögum varðandi réttarstöðu brotaþola, fatlaðra og aðstandenda.

Þá hefur frumvarp heilbrigðisráðherra um afglæpavæðingu neysluskammta vímuefna verið lagt fram á Alþingi auk frumvarps ráðherra um strangari reglur um sölu og auglýsingar á rafrettum.

Menntamálaráðherra leggur fram frumvarp sem kveður á um að umsækjendur um tiltekin störf í skóla- og leikskólakerfinu skuli leggja fram sakavottorð. Hún hefur einnig lagt fram frumvarp um fagráð eineltismála.

Fjögur frumvörp eru lögð fram af fjármálaráðherra; frumvarp til heildarlaga um verðbréfasjóði, frumvarp sem ætlað er að tryggja skattalegt hagræði af fjárfestingu í nýsköpun, frumvarp um breytingu á ýmsum lögum til að mæta mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldursins og að lokum frumvarp sem mælir fyrir um hækkun lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs úr 12 prósentum í 15,5 prósent.

Á mánudag hefjast þingstörf á ný eftir páska.  Liðinn er frestur ríkisstjórnarinnar til að leggja fram þingmál sem hún vill ljúka fyrir þinglok en áætlað er að þingstörfum ljúki í júní. Þá fer þingið í sumarfrí og þeir flokkar sem ekki hafa lokið við að stilla upp á framboðslista hefjast handa áður en kosningabaráttan fer á fullt síðsumars. Kosið verður til alþingis 25. september.