Tuttugu og níu fullorðnir einstaklingar hafa verið dæmdir ósakhæfir eða þurfa á öryggisgæslu að halda. Þetta kemur fram í kortlagningu félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins á þörf fyrir öryggisþjónustu í landinu. Auk þess er mat sveitarfélaganna að 14 börn þurfi á öryggisráðstöfun að halda.
Öryggisgæsla eða öryggisvistun hefur verið mikið í umræðunni síðustu ár. Reykjavíkurborg vildi losna við rekstur vistunar í Seljahverfinu og ráðist var á barn við öryggisvistun á Akureyri. Stefnt er að því að koma á fót nýrri öryggisvistun fyrir allt landið í Reykjanesbæ en íbúarnir í hverfinu þar sem hún átti að rísa hafa mótmælt harðlega.
Samkvæmt skilgreiningu eru 8 einstaklingar með alvarlegar geðraskanir eða þroskaskerðingar og hafa annað hvort verið dæmdir ósakhæfir eða talið er að refsing muni ekki bera árangur. 21 einstaklingur hefur ekki verið ákærður eða dæmdur fyrir afbrot, en er talinn hættulegur og þurfa á öryggisvistun að halda.
Stefnt er að því að ný öryggisþjónusta ríkisins taki við þeim einstaklingum sem dæmdir hafa verið ósakhæfir. Sveitarfélög geta óskað eftir að koma öðrum sem taldir eru hættulegir á þá stofnun, en að undangengnu mati og úrskurði dómara og aðeins til 12 mánaða í senn.
Samkvæmt stefnu ráðuneytisins í málaflokknum er gert ráð fyrir að hin nýja stofnun rísi í Reykjanesbæ í nóvember árið 2023. Samfara verður búið til nýtt nám sem nýtist starfsfólki við stofnunina. Kostnaður á árinu 2022 er áætlaður 810 milljónir króna, en kostnaður fyrir tvö næstu ár liggur ekki fyrir.