Reykjavíkurborg hefur undanfarna daga flutt gríðarlega mikið af snjó í Elliðaárvog. Snjónum er mokað af götum Reykjavíkur í fjölda bíla sem flytja hann þangað.
„Þetta er umfangsmikið verk sem hefur gengið ágætlega,“ segir Hjalti Jóhannes Guðmundsson, skrifstofustjóri reksturs og umhirðu borgarlandsins, sem telur að bílarnir séu tuttugu til þrjátíu talsins.
„Þetta er gríðarlegt magn af snjó,“ segir Hjalti.
Í dag er búist við miklum hlýindum og úrkomu og gert er ráð fyrir asahláku. Tryggingafélög hafa því varað viðskiptavini sína við því að mikil hætta sé á vatnstjóni og mikilvægt að gera viðeigandi ráðstafanir.
Eru þeir hvattir til að hreinsa snjó, klaka og önnur óhreinindi frá niðurföllum við hús sín.
Bent er á að tryggingar bæta ekki vatnstjón sem verður vegna utanaðkomandi vatns frá svölum, þakrennum eða frárennslisleiðum.