„Þetta er oft almennur trassaskapur, það á alltaf að fara að gera hlutina en svo frestast þeir,“ segir Þórsteinn Ragnarsson, forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkur þar sem alls 271 duftker bíður þess í hillum í bálstofunni að verða sótt og greftrað.

Að sögn Þórsteins hefur duftker lengst staðið uppi í hillu á skrifstofu kirkjugarðanna í sjö ár og bíður þess enn að vera sótt af aðstandendum hins látna. Hann segir að kirkjugarðarnir beini því eindregið til fólks að sækja kerin. Garðarnir hafi sérstakar hitamottur sem geri kleift að grafa kerin í jörðu þegar kalt er og nú sé tekið á móti grafarbeiðnum.

Um árabil hefur reglulega þurft að biðla til mjög margra um að sækja kerin og koma þeim í jörðu. Þórsteinn segir að aðallega séu þrjár ástæður fyrir því að kerin séu ekki sótt og grafin. Í fyrsta lagi beri fólk fyrir sig að það hafi haldið að jarðsetningin yrði sjálfkrafa framkvæmd af kirkjugörðunum.

Í öðru lagi sé oft beðið eftir tilteknum ættingja frá útlöndum sem síðan aðhafist ekkert. Og þá vita aðstandendur stundum ekki af því að málin séu ófrágengin vegna samskiptaleysis innan fjölskyldna.Kostnaður við að sækja kerin og láta grafsetja þau er enginn, segir Þórsteinn, þar sem sá kostnaður hafi þegar verið greiddur þeirri útfararstofu sem sá um útförina.

Hluti duftkeranna sem bíða ástvina í bálstofu Kirkjugarða Reykjavíkur. Sum hafa beðið í sjö ár.
Fréttablaðið/Valli

Fólk eigi því inni hjá stofunum þá þjónustu að senda inn beiðni um að ljúka útfararferlinu. Einnig fá aðstandendur uppgefið á hvaða degi líkbrennslan fari fram og er því hægara um vik að ákveða jarðsetningardag duftkers.

„Við viljum þó ekki taka frumkvæðið að því að grafa kerin, það hefur ekki gefið góða raun því við það vaknar meðvitund fólks stundum og það verður ósátt,“ segir Þórsteinn, en allir sem sæki ekki ker síns látna aðstandanda fái bréf með beiðni um að ganga frá málum.

Sú aðferð hafi hins vegar borið takmarkaðan árangur. „En það er ákveðin virðing að sinna þessu,“ undirstrikar hann.

Líkbrennsla hefur færst mjög í vöxt á síðustu árum. Árið 2019 völdu tæp 44 prósent bálför og langt yfir helmingur allra útfara á höfuðborgarsvæðinu var bálfarir, samkvæmt nýjustu tölum Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma.