Að minnsta kosti 64 létust og ríf­lega hundrað særðust eftir að eldur kviknaði á spítala í borginni Nasiri­ya í Írak en al-Hussein kennslu­sjúkra­húsið sér meðal annars um ein­stak­linga sem hafa smitast af CO­VID-19.

Að því er kemur fram í frétt Al Jazeera um málið kviknaði eldurinn eftir að súr­efnistankur á gjör­gæslu­deild fyrir CO­VID-smitaða sprakk seint í gær­kvöld. Deildin opnaði að­eins fyrir þremur mánuðum og voru þar legu­pláss fyrir 70 ein­stak­linga.

Al­manna­varna­t­eymi náðu skömmu síðar að slökkva eldinn en tals­maður heil­brigðis­yfir­valda í borginni, Haydar al-Zamili, greindi frá því í morgun að 52 lík hafi fundist í rústunum auk þess sem 22 var bjargað. Leit myndi þó halda á­fram þar sem óttast er að fleiri sitji fastir í rústunum. Fjöl­margir hafa safnast að rústunum í von um að finna ást­vini sína.

Annar mannskæður spítalabruni

For­seti Írak, Bar­ham Sali­h, segir að at­vikið megi rekja til spillingar og ó­stjórnar en hann hefur kallað eftir endur­skoðun á inn­viðum ríkisins.

For­sætis­ráð­herra Írak, Mu­stafa al-Kadhimi, hefur nú lýst yfir neyðar­á­standi í Dhi Qar, þar sem Nasirya er stað­sett, og gefið út hand­töku­skipun gegn yfir­manni heil­brigðis­mála, for­stjóra spítalans, og for­manni al­manna­varna þar.

Um er að ræða annan mann­skæða spítala­brunann í Írak á þessu ári en síðast­liðinn apríl sprakk súr­efnistankur á spítala fyrir CO­VID-smitaða í Bag­hdad. Alls létust 82 þar og særðust 110 til við­bótar. Í kjöl­far þess sagði þá­verandi heil­brigðis­ráð­herra af sér.

COVID-19 faraldurinn hefur reynst verulega skæður í Írak en frá upphafi faraldursins hafa tæplega 1,44 milljón manns greinst með veiruna og tæplega 17.600 látist.