Á sjötta hundrað hafa boðað komu sína á mótmæli á Austurvelli á laugardaginn. Tilefni mótmælanna eru niðrandi ummæli sem sex þingmenn létu falla á barnum Klaustur í miðbæ Reykjavíkur. Þingmennirnir sátu við drykkju og var upptaka af samtölum þeirra, sem send á nokkra fjölmiðla. 

Ummæli þingmannanna hafa vakið mikla reiði, en þar heyrðust þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins meðal annars kalla Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, „húrrandi klikkaða kuntu“ og annar sagði Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, ekki treystandi því hún „spilaði á karlmenn eins og kvenfólk hann.“

Blöskraði orðbragð þingmannanna 

„Mér blöskraði þetta bara, ég er venjuleg kona og mér fannst þessi ummæli ömurleg,“ segir Arndís Jónasdóttir, kennari og einn af skipuleggjendum mótmælanna í samtali við Fréttablaðið. 

„Það er ógeðslegt að heyra hvernig talað var um konur, fatlaða og samkynhneigða og mér finnst þetta ekki boðlegt fyrir mig sem kjósanda.“

Á upptökunum má einnig heyra þingmennina gera grín að Freyju Haraldsdóttur, fyrrum varaborgarfulltrúa Bjartrar framtíðar og kynjafræðing. Líkti þar einn þingmaður eftir sel þegar talið barst að Freyju.

Krefjast þess að þingmennir segi af sér

Aðspurð hvort krafan sé sú, að þingmennirnir sex segi af sér, segir Arndís kröfu mótmælanna vera skýra. 

„Já hún er sú að þeir segi af sér. Það er bara einn þingmaður sem hefur sýnt iðrun og það er einmitt konan í hópnum,“ segir Arndís og vísar til Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, þingmanns Miðflokksins, sem í samtali við RÚV sagðist ekki eiga sér neitt til málsbóta

„Ég á mér engar málsbætur. Ég tek fulla ábyrgð á mínum orðum í þessu. Ég hef eytt töluverðum hluta dagsins í að biðja fólk afsökunar og ég geri það að heilum hug,“ sagði Anna Kolbrún. 

Vilja ná athygli þingsins

Sem fyrr segir hafa á sjötta hundrað boðað komu sína á mótmælin þegar þessi orð eru rituð, laust eftir klukkan ellefu að kvöldi. Arndís segist ekki hafa búist við svo miklum viðbrögðum svo fljótt en segir að dagskrá fundarins verði að öllum líkindum einföld, markmiðið er að ná athygli þingmannanna. 

Á laugardaginn milli hálf tvö og sex er opið hús á Alþingi í tilefni af hundrað ára afmæli fullveldis Íslands. Búast má þá við að fjöldi verði saman kominn á þinginu.