Nú þegar miðkjörtímabilskosningarnar í Bandaríkjunum eru loks að baki er loksins hægt að fara að hugsa alvarlega um forsetakosningarnar 2020. Það er ekkert leyndarmál að Demókratar þrá að kippa forsetastólnum undan Donald Trump. Sjálfur hefur forsetinn tilkynnt að hann ætli að sækjast eftir endurkjöri og kemur það lítið á óvart.

Þar sem Demókratar unnu fulltrúadeildina á þriðjudaginn og munu hafa meirihluta þar fram að næstu kosningum geta þeir rannsakað meint brot Trumps í embætti. Hvort sem um er að ræða meint samráð framboðs hans við Rússa, sem sérstakur saksóknari rannsakar einnig, meinta nýtingu embættisins í hagnaðarskyni eða meinta hindrun framgangs réttvísinnar vegna orðræðu og gjörða í tengslum við Rússarannsóknina.

Og vilji Demókratar hámarka sigur­líkur sínar 2020 geta þeir horft til ýmissa þátta kosninga þriðjudagsins og dregið af þeim lærdóm.

Ýmislegt hægt að læra

Eins og Fréttablaðið fjallaði um í vikunni eru Demókratar í miklu sóknarfæri í úthverfum Bandaríkjanna. Þau hafa í gegnum tíðina verið heldur á bandi Repúblikana en meira að segja í úthverfum borga eins og Houston og Oklahoma City unnu frambjóðendur Demókrata til fulltrúadeildar sigra á þriðjudaginn.

Þótt Repúblikanar vilji ekki aukna ríkisvæðingu heilbrigðiskerfisins vilja flestir kjósendur sjá slíka þróun. Þannig samþykktu kjósendur í Repúblikanaríkjunum Idaho, Nebraska og Utah frumvörp sem auka opinbera þjónustu við fátækari einstaklinga.

Einnig boðar gott fyrir Demókrata að þeir náðu að vinna stóra sigra í miðvesturríkjunum. Til dæmis í Michigan, Illinois, Minnesota og Wisconsin. Trump náði Michigan og Wisconsin á sitt band 2020 eftir að fyrri frambjóðendur Demókrata höfðu sigrað ríkin án mikillar fyrirhafnar. Tapi hann þeim árið 2020 færist forsetinn nær ósigri.

Í aðdraganda kosning ræddu skýrendur mikið um að í ljós kæmi hvort betra væri fyrir Demókrata að stilla upp framsæknum frambjóðanda og hámarka þannig kjörsókn eða miðjumanni til þess að höfða til fleiri kjósenda og freista þess að vinna fleiri ríki þannig. Ekki fékkst skýrt svar við spurningunni enda töpuðu stór nöfn beggja fylkinga.

Hins vegar er ljóst að Demókrataflokkurinn hefur verið að fjarlægjast rótgrónar hugmyndir helstu áhrifamanna og færist nær grasrótinni. Þannig má búast við því að framsæknir frambjóðendur verði áberandi í forkosningunum.

Líklegir forsetaframbjóðendur Demókrata

Úr öldungadeildinni

Cory Booker
Booker gengur í takt við grasrótina og hefur greitt atkvæði með framsæknum frumvörpum á þingi. Þá hefur hann einnig lag á því að komast í fréttirnar og þykir tala eins og hann sé nú þegar í framboði. Hefur ferðast um mikilvægustu forkosningaríki Demókrata.


Amy Klobuchar
Öllu meiri miðjumaður en flestir frambjóðendur Demókrata. Hefur verið á flakki í Iowa, fyrsta forkosningaríkinu, og situr á þingi fyrir ríki sem Trump komst afar nálægt því að vinna.

Elizabeth Warren
Hinn jötunninn, ásamt Bernie Sanders, á meðal framsækinna Demókrata. Er vinsæl á meðal Demókrata og hefur ferðast um mikilvægustu forkosningaríki flokksins. Á í basli með orðræðu forsetans um hvort hún sé komin af frumbyggjum. Birti umdeilt myndband sem átti að svara spurningunni og fékk dræmar viðtökur.

Kirsten Gillibrand
Gillibrand er vinsæl í heimaríkinu New York. Í fortíðinni þótti hún meiri miðjumaður en nú hefur hún tekið sér stöðu með grasrótinni og telst til framsækinna Demókrata. Hefur ferðast um mikilvægustu forkosningaríki Demókrata.

Bernie Sanders
Afi hins nýja vinstris sem kom öllum á óvart og veitti Hillary Clinton raunverulega samkeppni í forkosningum Demókrata 2020. Sagður íhuga að bjóða sig aftur fram og hefur ferðast um mikilvægustu forkosningaríki Demókrata. Verður hins vegar 79 ára á kjördag.

Kamala Harris
Nafn Harris hefur verið mikið í umræðunni og hún er vinsæll öldungadeildarþingmaður. Líkt og Booker þykir hún tala eins og hún sé komin í framboð. Hefur ferðast um mikilvægustu forkosningaríki Demókrata.

Sherrod Brown
Heldur sífellt áfram að vinna kosningar í Ohio, mikilvægu barátturíki allra undanfarinna forsetakosninga. Talar eins og hann sé í framboði til forseta.

Úr fulltrúadeildinni

Beto O’Rourke
Þrátt fyrir að hafa tapað fyrir Ted Cruz í öldungadeildarkosningum í Texas er O’Rourke enn talinn líklegur í forsetaframboð. Hann hreif Demókrata víðs vegar um Bandaríkin með sér með sínum gríðarlega sjarma.

Tulsi Gabbard
Hluti af Sanders og Warren-væng flokksins. Hefur ferðast um mikilvægustu forkosningaríki Demókrata og er sögð vera að kanna grundvöll fyrir framboði.

Ríkisstjórarnir

Steve Bullock
Er ríkisstjóri Montana, sem kýs venjulega Repúblikana, og þykir hafa sýnt fram á hvernig Demókratar geta unnið rauðustu ríkin. Hefur ferðast um mikilvægustu forkosningaríki Demókrata.

John Hickenlooper
Miðjumaður sem hefur verið leiðandi í baráttunni fyrir hertri skotvopnalöggjöf. Er opinberlega að undirbúa framboð. Hefur ferðast um mikilvægustu forkosningaríki Demókrata.

Martin O’Malley
Bauð sig fram til forseta í forkosningum Demókrata árið 2016 en náði litlum sem engum árangri. Hann þykir líklegur til að reyna aftur og hefur ferðast um mikilvægu ríkin.

Borgarstjórarnir

Michael Bloomberg
Milljarðamæringur og fyrrverandi borgarstjóri New York. Bloomberg hefur áður rætt um áhuga sinn á forsetaframboði og var orðaður við framboð sem óháður 2016. Hann hefur skráð sig aftur í Demókrataflokkinn og styrkti frambjóðendur um háar upphæðir í ár.

Eric Garcetti
Borgarstjóri Los Angeles, Garcetti, virðist vera í framboði og hefur flakkað um fyrstu forkosningaríkin á undanförnum mánuðum. Fáir þekkja hann utan heimaborgarinnar en með þessu hefur hann styrkt stöðu sína.

Menn Obama

Joe Biden
Varaforseti Obama sem íhugaði alvarlega forsetaframboð 2016 og segist sjá eftir því að taka ekki slaginn. Hefur ferðast um mikilvægustu forkosningaríki Demókrata og mælist iðulega vinsælastur í könnunum.

Eric Holder
Dómsmálaráðherra Obama sem hefur verið áberandi í kosningabaráttu Demókrata undanfarna mánuði. Hefur ferðast um mikilvægustu forkosningaríki Demókrata.

John Kerry
Utanríkisráðherra Obama. Tapaði naumlega í forsetakosningum gegn George W. Bush árið 2004. Hefur ekki verið áberandi í kosningabaráttu en þó sést í Nevada og Iowa.

Næsti Trump

Michael Avenatti
Avenatti er lögmaður klámstjörnunnar Stormy Daniels sem átti í málaferlum gegn Trump forseta. Hann er án nokkurs vafa að undirbúa forsetaframboð og hefur, þrátt fyrir skort á pólitískri reynslu, flakkað um Bandaríkin og kynnt stefnumál sín. Er vinsæll talsmaður hörðustu andstæðinga Trumps og gæti í raun orðið eiginlegur Trump þeirra Demókrata. Þykir hafa skotið sig í fótinn á dögunum þegar hann sagði að Demókratar þyrftu að stilla upp hvítum karlmanni árið 2020 þar sem orð þeirra hefðu meiri vigt.

Mark Cuban
Cuban er mikill andstæðingur forsetans en hliðstæða hans á sama tíma. Cuban er þekktur fyrir að vera eigandi körfuknattleiksliðsins Dallas Mavericks og fyrir að vera raunveruleikasjónvarpsstjarna í sjónvarpsþáttunum Shark Tank. Hann er milljarðamæringur og hefur lengi verið orðaður við framboð.