Á þriðja tug vitna hefur verið yfirheyrður vegna húsbrunans við Bræðraborgarstíg 1, þann 25. júní síðastliðinn, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Meðal þeirra eru bæði fórnarlömb brunans og íbúar hússins, auk annarra vitna sem voru í námunda við brunann.
Bruninn er rannsakaður sem manndráp af ásetningi. Auk þess er hinn grunaði sakaður um íkveikju sem olli almannahættu, um að hafa stefnt lífi fólks í hættu og að hafa brotið gegn valdstjórninni.
Hinn grunaði var þann 15. júlí úrskurðaður í gæsluvarðhald til 6. ágúst. Ekki er víst hvort ákæra verði gefin út fyrir þann tíma.
Yfirheyrslur yfir manninum eru hafnar, en ekki var hægt að ræða við hann í að minnsta kosti þrjár vikur í kjölfar brunans vegna andlegs ástands.
Vettvangsrannsókn að Bræðraborgarstíg er lokið af hálfu lögreglunnar. Áður en ákæra verður gefin út er nú beðið niðurstöðu rannsókna á sýnum sem tekin voru á staðnum. Hvort óskað verði framlengingar á gæsluvarðhaldi 6. ágúst, ræðst þó fyrst og fremst af því hvernig lögreglu sækist að kynna hinum grunaða gögn málsins og yfirheyra um málsatvik. Enginn annar en umræddur maður hefur stöðu grunaðs.
Alls létust þrír í brunanum við Bræðraborgarstíg. Fjórir lögðust inn á spítala, þar af tveir á gjörgæslu. Þrír af þeim sem þurftu að leggjast inn á spítala hafa nú verið útskrifaðir, en sá fjórði er enn þungt haldinn.