Guðrún Lára Pálmadóttir, íbúi á Hellissandi, segir kríum sem verpa við Rif og Hellissand stafa mikil hætta af bílaumferð á svæðinu.

Varfærið mat hennar er að um 25 kríur falli í valinn hvern dag, en hún telur reglulega hræin á svæðinu, en Vegagerðin gerir sér ferð einu sinni eða tvisvar á dag til að fjarlægja þau.

Hún telur þó forvarnargildi í að láta kríuhræin liggja áfram á veginum þannig að bílstjórar geri sér grein fyrir vandamálinu.

Mikið kríuvarp er við Rif og Hellissand.
Aðsend mynd.

„Þetta er rosalegt ástand hérna, hreinasti hryllingur. Ár eftir ár er þetta sama uppi á teningnum og okkur íbúum mörgum misbýður aðgerðaleysið hjá bæði Snæfellsbæ og Vegagerðinni,“ segir Guðrún.

Árið 2019 hóf Guðrún að vekja athygli á vandamálinu undir merki Kríuvarnarbandalagsins. Í kjölfarið var hámarkshraði lækkaður um varptímann og í fyrra voru sett upp viðvörunarskilti með blikkljósum.

Hún segir þær aðgerðir hafa gert gagn og dregið úr drápinu en að í ár séu engar aðgerðir sjáanlegar. Hámarkshraði hafi ekki verið lækkaður og er nú 90 kílómetrar á klukkustund almennt en 70 við þéttasta varpið. „Ungarnir eiga engan séns,“ segir Guðrún og bendir á að það fólk sem þekki til keyri flest varlega í gegnum svæðið. Aðrir vita ekki að þeir séu að keyra beint inn í kríuvarp.

„Þetta er svo mikil óvirðing við náttúruna því kríustofninn, eins og aðrir sjófuglar, er í gríðarlegum vanda vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum,“ segir Guðrún.

„Þetta er gríðarleg blóðtaka fyrir stofn sem er í hraðri hnignun og jafnvel í útrýmingarhættu. Það er líka algjör skömm að þessu hér rétt við þjóðgarðsmörk Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls.“

Guðjón H. Björnsson, verkstjóri Vegagerðarinnar í Ólafsvík, sagði í samtali við RÚV í gær að mikið eftirlit væri með svæðinu og til skoðunar að lækka hámarkshraða.

„Við lækkuðum hámarkshraðann á síðasta ári varanlega niður í 70 kílómetra á klukkustund en það stendur til að lækka það enn frekar, niður í 50 kílómetra á klukkustund á ákveðnum kafla,“ segir hann.

Guðjón segir dagamun á því hve margir ungar eru drepnir. „Suma daga erum við að hreinsa upp 20 unga en aðra daga enga,“ segir hann. Svæðið sé vel merkt en ökumenn greinilega ekki nógu varkárir.

Vegagerðin fjarlægir kríuhræin.
Aðsend mynd.
Aðsend mynd.