Í skýrslunni State of the Nordic Region kemur fram að húsnæðisverð á Íslandi hækkaði mest af öllum Norðurlöndunum í Covid heimsfaraldrinum en jafnframt að landsframleiðsla dróst mest saman hérlendis. Þá kemur fram að atvinnuleysi jókst mest á Íslandi á sama tíma en að mótvægisaðgerðir stjórnvalda virðast hafa borið góðan árangur.
Í heimsfaraldrinum fór fæðingartíðni vaxandi, eins og á hinum Norðurlöndunum. Fæðingartíðni var 7,8 prósent hærri frá janúar til september árið 2021 miðað við sama tímabil árið 2020.
Innflytjendum til Íslands fækkaði um sautján prósent milli áranna 2019 og 2020. Fólksflutningar frá Íslandi fjölgaði um þrettán prósent á sama tíma. Fækkun innflytjenda til Íslands skýrist að miklu leiti af því að færri komu frá Tékklandi, Litháen, Póllandi og Serbíu, samkvæmt rannsókninni.
Fólksflutningur frá Íslandi var mest til Króatíu, Litháen, Lettlands, Póllands, Portúgal og Rómaníu. Flutningar innanlands hækkuðu um sextán prósent milli áranna 2019 og 2020 og höfðu ekki verið hærri frá árinu 1986.
Atvinnuleysi á Íslandi hefur hækkað mikið frá því faraldurinn hófst. Í fyrsta ársfjórðungi ársins 2019 var atvinnuleysi 2,5 prósent. Í öðrum ársfjórðungi árið 2021 náði atvinnuleysi hápunkti og var þá 7,9 prósent en hefur fallið síðan. Við lok árs 2021 var atvinnuleysi 5,3 prósent.
Þeir geirar vinnumarkaðsins sem urðu verst fyrir barðinu á faraldrinum voru fasteignamarkaðurinn, flutningar og samgöngur, og listir.

Mótvægisaðgerðir skiluðu árangri
Skýrslan, State of the Nordic Region kemur út annað hvert ár á vegum Nordregio, rannsóknarstofnun Norrænu ráðherranefndarinnar. Þar eru birtar ýmsar tölfræðiupplýsingar, rannsóknir og samanburður á bæði efnahagslegum og félagslegum mælikvörðum á Norðurlöndunum. Inntak skýrslunnar núna er nokkuð litað af heimsfaraldri Covid-19 og því hvernig hann hafði áhrif á efnahag, vinnumarkað, fólksflutninga og lýðfræðilega þróun innan Norðurlandanna.
„Mótvægisaðgerðir í efnahagsmálum virðast hafa skilað nokkuð góðum árangri á Íslandi, þar sem ferðaþjónusta er stór atvinnugrein sem varð fyrir miklum áhrifum af heimsfaraldrinum. Á Íslandi urðu gjaldþrot árið 2020 hins vegar talsvert færri miðað við meðaltal áranna 2014–2019,“ segir Gustaf Norlén einn ritstjóra State of the Nordic Region og greinandi hjá Nordregio, í tilkynningu um skýrsluna.
Í skýrslunni kemur fram að verg landsframleiðsla dróst mest saman á Íslandi af öllum Norðurlöndunum, eða um 6,5 prósent á árinu 2020 samanborið við -2,9 prósent í Finnlandi, -2,8 prósent í Svíþjóð, -2,1 prósent í Danmörku og aðeins 0,8 prósent í Noregi.
Þegar húsnæðisverð er skoðað sérstaklega sést að það hækkaði almennt talsvert á öllum Norðurlöndunum síðastliðin tvö ár, en þó mest á Íslandi. Þar á eftir koma verðhækkanir húsnæðis í Svíþjóð, Danmörku og Noregi á meðan Finnland sker sig nokkuð úr með hóflegri verðhækkunum og stöðugri húsnæðismarkaði.
„Það blasir við að hlutfall þeirra sem vinna að heiman hefur aukist mikið sem hefur haft áhrif á ferðahegðun, húsnæðisverð og val á búsetu. Húsnæðisverð í sumum landsbyggðarsvæðum Norðurlandanna – til dæmis í Åre í Svíþjóð og Bornholm í Danmörku – jókst meira en í stórborgunum. Þegar verð á landsvísu er svo skoðað var hækkunin mest á íbúðarhúsnæði á Íslandi,“ segir Linda Randall, annar skýrsluhöfunda hjá Nordregio,í tilkynningunni.
Þar kemur svo fram að heilt yfir sýni skýrslan að hagkerfi Norðurlandanna hafi tekist vel á við faraldurinn faraldurinn og jafnvel betur en önnur ríki í Evrópu, þótt svo að neikvæð áhrifi faraldursins hafi allsstaðar verið umtalsverð.
Á Norðurlöndunum jókst atvinnuleysi mest á Íslandi í kjölfar Covid og samkvæmt skýrslunni hefur heimsfaraldurinn leitt í ljós vaxandi félagslega gjá á milli ólíkra svæða og þjóðfélagshópa á Norðurlöndum, sérstaklega milli ólíkra tekjuhópa og milli landsbyggðar og þéttbýlisstaða.
„Skýrslan sýnir að veikari hópar eins og aldraðir, þeir sem fæddir eru erlendis og ungt fólk hafa orðið fyrir neikvæðustu áhrifum heimsfaraldursins, einnig hér á Norðurlöndunum, bæði hvað varðar heilsu og fjárhag. En jafnframt sjáum við að stuðningsaðgerðir stjórnvalda við fyrirtæki og launþega hafa stuðlað að færri gjaldþrotum og talsvert hraðari bata en eftir fjármálakreppuna 2008,“ segir Gustaf Norlén enn fremur.
Ýmislegt annað fróðlegt má lesa í State of the Nordic Region sem kom út í dag. Hægt er að skoða hana betur hér að neðan en kynning á skýrslunni fer fram í Norræna húsinu í dag í hádeginu á Norræna deginum. Starfsfólk Nordregio og skýrsluhöfundar munu kynna lykilhluta skýrslunnar og í kjölfarið svara spurningum viðstaddra.
Hér er hægt að hlaða niður skýrslunni.
Hér er að finna nánari upplýsingar um viðburðina, tengil á skráningu ef þú vilt taka þátt, hvort sem er á staðnum eða í gegnum netútsendingu þann 23. mars.