Borist hafa 85 umsóknir til Bændasamtaka Íslands vegna afleysingaþjónustu fyrir bændur. Samtökin auglýstu eftir fólki til að hafa á skrá fyrir rúmri viku. Í upphafi voru afleysingarnar hugsaðar sem öryggisnet fyrir einyrkja og það er enn þá aðalmarkmiðið. En síðan hefur verið ákveðið að þetta geti nýst stærri búum einnig.

Guðbjörg Jónsdóttir, verkefnisstjóri hjá Bændasamtökunum, segir að fólk með ýmiskonar bakgrunn hafi sótt um, þó sérstaklega mikið úr ferðaþjónustugeiranum.

„Fjallaleiðsögumenn hafa til dæmis sýnt þessu verkefni áhuga,“ segir Guðbjörg. „En einnig sérhæft og búfræðimenntað fólk sem er gott því að ýmis búnaður er sérhæfður.“ Engin ákveðin skilyrði eru sett við umsóknirnar og hvert tilvik verður metið fyrir sig.

Sauðburður hefst eftir um mánuð og Guðbjörg býst við því að þá muni reyna á þessa þjónustu. „Við munum ábyggilega þurfa marga til aðstoðar við sauðburðinn,“ segir hún.

COVID-19 smit hafa alls komið upp á sex búum, sem öll eru í Húnavatnssýslu. Flestir bændur eru þó þegar farnir að skipta vinnufólki upp í hópa, til að forðast að allir smitist á sama tíma.

„Fólk er enn þá að bjarga sér innan svæðis og enginn hefur enn nýtt afleysingaþjónustuna. En flestir vita af henni,“ segir Guðbjörg.