Árni Arn­þórs­son, að­stoðar­rektor al­þjóð­lega há­skólans í Kabúl, segir stöðuna í Kabúl mjög snúna um þessar mundir og ó­ljóst hvernig fram­tíð há­skólans muni verða undir stjórn Tali­bana. Hann segist ekki geta full­yrt margt um á­standið í höfuð­borginni en fréttirnar sem hann fær frá kollegum sínum mála upp dökka mynd.

„Myndin frá mínu fólki er nokkurn veginn þannig að kven­fólkið þorir ekki að fara út á götur og mikil sálar­angist sér­stak­lega meðal kvenna sem eru vel menntaðar og búnar að vinna allt sitt líf,“ segir hann.

Árni segir fram­göngu Tali­bana vera mis­munandi eftir borgar­hlutum, allt eftir því hvaða hópar Tali­bana ráði ríkjum á hverju svæði fyrir sig.

„Sumir af þessum hópum eru mjög vin­sam­legir og hjálp­sam­legir og eru ekki að gera neina hluti sem valda á­hyggjum og eru kannski að­eins að hlusta á yfir­menn sína að vera ekki að gera neitt við fólkið. Önnur svæði hins vegar, þar sem að her­skárri og grimmari Tali­banar eru, þar er verið er að berja fólk og fara inn í hús. Það er verið að leita til dæmis að okkar fólki og það eru margir mjög hræddir.“

Þá segir hann Tali­bana sér­stak­lega beina spjótum sínum að minni­hluta­hópum á borð við hina pers­nesku­mælandi Hazara, þriðja stærsti þjóð­ernis­minni­hluta Afgan­istan sem hefur lengi verið of­sóttur af Tali­bönum. Þá hafa Tali­banar brenni­merkt al­þjóð­lega há­skólann í Kabúl sem óvin ríkisins og því við­búið að nú­verandi og fyrr­verandi nem­endur skólans muni verða skot­spónn þeirra.

„Þannig að ég er ekkert að hringja í þá til þess að spyrja þá hvort þeir geti sent mér fötin mín með DHL, þeir lík­lega munu ekki vilja gera það. 90 prósent af mínum fatnaði var þarna, öll mín jakka­föt, allar mínar skyrtur og allt saman og slaufurnar mínar, þetta er allt saman farið. Svo allt á minni skrif­stofu, allar bækurnar, þetta er allt saman farið,“ segir Árni og hlær.

Myndin frá mínu fólki er nokkurn veginn þannig að kven­fólkið þorir ekki að fara út á götur og mikil sálar­angist sér­stak­lega meðal kvenna sem eru vel menntaðar og búnar að vinna allt sitt líf.

Tókst að bjarga fjöru­tíu nem­endum úr landi

Hamid Karzai al­þjóða­flug­völlurinn í Kabúl var endur­opnaður á laugar­dag fyrir innan­lands­flug og neyðar­að­stoð er­lendis frá en milli­landa­flug hefur enn ekki komist aftur á sem hefur tafið það til muna að koma nem­endum Árna úr landi. Tals­menn Tali­bana hafa þó heitið því að opna aftur fyrir milli­landa­flug von bráðar. Árna og kollegum hans tókst að koma fjöru­tíu nem­endum frá Afgan­istan áður en milli­landa­flug stöðvaðist og segist hann þar að auki vita um rúm­lega hundrað nem­endur og þrjá­tíu starfs­menn sem hafi komist úr landi á eigin vegum.

„Nú er okkar vinna heil­mikið falin í því að hjálpa því fólki, ég til dæmis veit af alla­vega tuttugu nem­endum sirka sem við erum með í Pakistan sem eru þar ó­lög­lega. Þannig við þurfum bara að finna út úr því hvað við getum gert fyrir það fólk. Svo erum við með fólk út um allan heim, það eru yfir 25 lönd sem fólk hefur dreifst til, annað hvort orðið flótta­menn og eru í flótta­manna­kerfinu eða hafa komist með ein­hverjum öðrum leiðum og svo nú erum við að reyna að safna upp­lýsingum um það.“

Árni segist flokka nem­endur sína í þrjá hópa eftir því hversu mikilli hættu þeir eru í. Í fyrsta lagi eru það þeir sem eru í mestri hættu og þarf að sinna sam­stundis, í öðru lagi eru það þeir sem eru í minni hættu og þarf að sinna innan tveggja vikna og í þriðja lagi eru það þeir sem eru í lítilli hættu eins og stendur og þarf ekki að sinna fyrr en í októ­ber. Þá eru ó­taldir þeir nem­endur Árna sem eru enn fastir í Kabúl en Árni greindi Frétta­blaðinu áður frá því að fjöldi nem­enda sem hann freistaði að bjarga úr Kabúl væri um þúsund og fjöldi starfs­fólks um tvö hundruð. Það er því ljóst að enn eru á níunda hundrað nem­endur al­þjóð­lega há­skólans fastir í Kabúl og alls ó­víst hve­nær eða hvort þeir muni komast úr landi.

„Við erum náttúr­lega að reyna að flytja hópa í burtu og þá þurfum við að fá leyfi frá öðrum ríkis­stjórnum. Við höfum verið að tala við öll Stan-ríkin, Tadsíkistan, Úsbek­istan, Kirgistan, Pakistan. Við vorum til dæmis búin að fá leyfi frá Úsbek­istan í síðustu viku um að fara í gegnum það með hundrað manns frá Mazar-i-Sharif borginni en svo allt í einu köttuðu þeir á það leyfi. Við ætluðum að koma fólki þar í gegn til þess að komast til Kirgistan þar sem við höfum leyfi fyrir að hafa dá­lítið af fólki. En þetta er allt saman stopp, Kirgistan ríkis­stjórnin stoppaði allt sem heitir vega­bréfs­á­ritanir, þeir voru búnir að lofa 500 en núna er allt saman stopp. Katar er enn þá í bið­stöðu, þeir eru búnir að segja okkur að við munum lík­lega geta komið með fólk 1. októ­ber,“ segir Árni.

Konur mega ekki fara einar út úr húsi

Þá segir Árni málin vandast því sjaría­lög gera ráð fyrir því að konur megi hvorki fara út fyrir dyr nema þær séu í fylgd með föður, eigin­manni eða bróður, eða fara er­lendis. Slík lög séu nú við lýði innan­lands í Afgan­istan en Árni segir alls ó­víst hvort Tali­banar muni fram­fylgja þeim þegar kemur að konum sem vilja komast úr landi. Tali­banar hafa gefið út yfir­lýsingar þess efnis að þeir muni leyfa konum að mennta sig en Árni segir ó­víst hvort það muni einnig gilda um fjar­nám í gegnum netið eins og stór hluti náms við al­þjóð­lega há­skólann fer fram.

„Við vitum ekki hvort að þeir hafi skilið að það sé fólk líka að læra á netinu og hvort að þessar reglur gilda líka um netið, við erum ekki alveg með það á hreinu. Þannig að við erum bara að halda okkar striki með það,“ segir hann.

Að sögn Árna er staðan sí­fellt að breytast og fær hann 3-5 til­kynningar á hverjum degi frá nem­endum sínum sem eru staddir hvaða­næva í heiminum. Hann lýsir þessu sem ó­trú­lega flóknu hjálpar­starfi sem hann er kominn í en segist þó einnig reyna að stunda sitt hefð­bundna starf sem að­stoðar­rektor með fram því. Stefnt er að því að hefja kennslu aftur í há­skólanum í næstu viku jafn­vel þó Árna renni grunur um að Tali­banar muni ekki viður­kenna há­skólann innan Afgan­istan mikið lengur.

„Við ætlum að reyna að byrja kennslu í næstu viku og vitum að sumir krakkar vilja gera það en við erum með á­kveðna prósentu af krökkum sem ná ekki sam­bandi. Til dæmis í öllum þessum flótta­manna­búðum þar er ekki nein net­tenging þannig þau geta ekki farið í bekki þannig. Net­tenging er tak­mörkuð í Afgan­istan þannig að það verður á­kveðin prósenta af nem­endum sem við ætlum að gefa bara leyfi í eina önn og hjálpa því svo þegar þar að kemur í janúar,“ segir Árni að lokum.