Joe Biden, forsetaframbjóðandi Demókrata, fordæmir ákvörðun Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að mæta mótmælendum með herafla á götum úti.

„Við getum ekki leyft forseta að þagga niður í fólkinu,“ sagði Biden. Hann ávarpaði íbúa Philadelphiu í dag og sagði vonina ekki úti.

„Saga Bandaríkjanna sýnir okkur að á myrkum tímum tekur þjóðin okkar miklum framförum,“ sagði Biden.

Trump ræddi við blaðamenn í Rósargarði Hvíta hússins í gær þar sem hann bað fylkisstjóra um að ræsa út þjóðvarðarliðið til að bæla niður óeirðirnar og lýsti því yfir að hann myndi senda út herinn neiti fylkisstjórar að hlýða fyrirmælum hans.

Trump sagði mál George Floyd vera sorglegt og að óeirðarseggir væru að eyðileggja fyrir friðsamlegum mótmælendum. Á sama tíma, rétt fyrir utan hlið Hvíta hússins, var friðsamlegum mótmælendum bolað burt með táragasi svo forsetinn gæti rölt yfir götuna og tekið mynd fyrir framan kirkju St. Johns, forsetakirkjuna svokölluðu, með biblíu í hendi.

„Forsetinn hélt á biblíu fyrir framan kirkju St. Johns í gær. Ég vildi óska þess að hann opni þessa bók af og til í stað þess að veifa henni. Hann gæti lært eitthvað nýtt,“ sagði Biden.