Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, segist líta jákvæðum augum á aðildarumsókn Finnlands að Atlantshafsbandalaginu. Aftur á móti er hann ekki eins uppörvandi þegar kemur að umsókn Svía.

Bæði Svíar og Finnar sóttu um aðild að NATO eftir innrás Rússa í Úkraínu. Þjóðirnar mættu hins vegar óvæntri andspyrnu Tyrkja.

„Afstaða okkar gagnvart Finnum er jákvæð, en afstaða okkar gagnvart Svíum er það ekki. Á þessu stigi ættu Svíar ekki einu að reyna. Við munum ekki samþykkja umsókn þeirra á meðan þeir leyfa fólki að brenna Kóraninn,“ sagði Erdogan í ræðu sinni til AK-flokksins á tyrkneska þinginu.

Utanríkisráðherra Finnlands, Pekka Haavisto, segir Finna staðráðna í að sækja um aðild samhliða Svíum. Af 30 meðlimum bandalagsins eiga aðeins Tyrkir og Ungverjar eftir að samþykkja umsókn þeirra. Ungversk stjórnvöld segjast afgreiða málið á næstu vikum.