Í síðasta mánuði stóð yfir átakið Plastlaus september. Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, er einn þeirra sem tók þátt í átakinu. Hann fór við lok átaksins í september yfir sniðugar lausnir til að minnka einnota plastnotkun og hvers vegna það er svo mikilvægt að við minnkum hana. 

Guðmundur Ingi segir að hann hafi tekið þátt í átakinu í vetur með það markmið um að passa sig betur hvað hann kaupir og notar. Hann segir að hann hafi um langt skeið reynt að minnka plastnotkun á sínu heimili. Hann hafi sem dæmi lengi tekið með sér tóm box í fiskbúð í stað þeirra einnota sem þar oft fást. Þá sé langt síðan hann hætti að nota plastpoka og hann sé alltaf með á sér fjölnota taupoka.

„Ef maður skipuleggur sig, þá tekur þetta auðvitað ekki mikið pláss. Það eru engar afsakanir. Maður þarf að gera þetta hlut af sinni rútínu,“ segir Guðmundur.

Hann segir að þó hann hafi verið ágætlega meðvitaður um plast þá hafi hann lært margt í mánuðinum og hafi til dæmis skipt úr fjölmörgum hlutum á sínu eigin heimili sem voru úr plasti. Sem dæmi skipti hann út plast-tannburstanum fyrir bambus-tannbursta, keypti eyrnapinna sem eru úr bambus og uppþvottabursta.

„Þetta eru rosalega einfaldir hlutir, en þeir skipta máli“ segir Guðmundur. 

Í myndskeiðinu hér að neðan lýsir Guðmundur Ingi þeim lausnum sem hann fann í Plastlausum september, auk þess sem hann segir skemmtilega sögu frá Bandaríkjunum þegar hann neyddist til að svindla í átakinu.

Fjölnota ekki það sama og einnota

Guðmundur segir að það sé mikilvægt að gera greinarmun á því plasti sem maður notar. Það sé ýmislegt sem maður noti fjölnota en áhersla þurfi að vera á að minnka einnota plastnotkun

„Í fyrsta lagi. Plast er ekki það sama og plast. Það er ýmislegt plast sem maður er að nota fjölnota til að geyma matvæli og annað slíkt. Sem er gríðarlega mikilvægt til að varðveita gæði matvæla og til hann skemmist síður eða hægar. Það sparar matarsóun og peninga og minnkar það fótspor sem fylgir matarsóun,“ segir Guðmundur.

„Það er allt þetta einnota plast sem er alls staðar í kringum mann. Maður fer í veislur eða afmæli til dæmis þar sem fólk er augljóslega að flýta fyrir sér. Það eru til aðrar lausnir. Pappinn er betri eða hreinlega bara að leggja meira á sig og hafa það þannig að þú vaskir upp,“ segir Guðmundur og hlær. 

Eitt helsta viðfangsefni framtíðarinnar

Hann segir að plastmengun sé eitt helsta viðfangsefni framtíðarinnar. Hann segir frá því að í sumar hafi hann skipað samráðsvettvang um aðgerðaáætlun í plastmálefnum. Hann hefur það hlutverk að koma með tillögur um hvernig draga megi úr notkun plasts, bæta endurvinnslu þess og hvernig megi takast á við plastmengun í hafi. 

Samráðsvettvanginum er ætlað að koma með tillögur að æskilegum stjórnvaldsaðgerðum. Áætlað er að þau skili honum tillögum sínum fyrir 1. nóvember næstkomandi.