Lukasz Frydrychewicz, íbúi við Marbakkabraut í Kópavogi, segir að Kópavogsbær og tryggingafélögin vilji ekki hjálpa honum og kærustu hans, eftir að kaldavatnslögn við Kársnesbraut rofnaði og vatn lak inn í íbúðir í hverfinu.

Lukasz vissi ekki í gær hvar hann og Ewa Jaszczuk, kærasta hans, ættu að sofa.

„Við eigum enga fjölskyldu á Íslandi til að hjálpa okkur og hvorki Kópavogsbær né tryggingafélögin vilja hjálpa,“ sagði Lukasz.

Hann hafi spurt Kópavogsbæ hvort það væri hægt að koma þeim fyrir í félagslegri íbúð á meðan þau leysa úr stöðunni.

„Þau sögðu mér að fara á vefsíðuna sína og sækja um, það væru engar íbúðir lausar núna. Ég hef ekki tíma í þetta núna, ég get varla hugsað.“