Lög­regla í Hawa­ii hand­tók mann vegna glæps sem hann framdi ekki og vistaði hann í tæp þrjú ár á geð­spítala undir röngu nafni hvar hann var neyddur til að taka geð­lyf. Þegar upp komst um málið var reynt að hylma yfir mis­tökin og honum sleppt með að­eins 50 sent til að fram­fleyta sér.

Þetta kemur fram í gögnum The Hawa­ii In­nocence Project, sam­taka sem berjast fyrir réttindum fólks sem hefur verið rang­lega dæmt fyrir glæpi í Hawaii.

Jos­hua Spriesters­bach hafði sofnað úti á gang­stétt þegar hann beið í röð eftir mat fyrir utan gisti­skýli í Honolulu árið 2017. Hann var bæði heimilislaus og glímdi við andleg veikindi.

Lög­reglu­þjónn vakti Spriesters­bach og hand­tók hann fyrir að brjóta lög sem banna fólki að hvíla sig á götum borgarinnar. En það sem Spriesters­bach vissi ekki var að lög­reglu­þjónninn hafði tekið hann í mis­gripum fyrir mann að nafni Thomas Cast­leberry sem var með hand­töku­skipun fyrir það að brjóta skil­orð vegna fíkni­efna­glæps sem hann hafði verið dæmdur fyrir árið 2006.

Ekki liggur fyrir af hverju ruglast var á Spriesters­bach og Cast­leberry þar sem þeir höfðu aldrei hist og sá fyrr­nefndi hafði aldrei sagst vera Cast­leberry, að sögn Hawa­ii In­nocence Project.

Hefði hæg­lega getað verið leið­rétt

Þá vilja lög­menn Spriesters­bach meina að mis­skilningurinn hefði hæg­lega getað verið leið­réttur hefði lög­reglan ein­fald­lega borið saman myndir og fingra­för mannanna tveggja. Þvert á móti voru mót­mæli Spriesters­bach túlkuð sem rang­hug­myndir og hann vistaður á geð­deild Hawa­ii Sta­te Hospi­tal.

„Því meir sem hr. Spriesters­bach hélt fram sak­leysi sínum og stað­hæfði að hann væri ekki Cast­leberry, því fastar var því haldið fram að hann væri geð­veikur og með rang­hug­myndir, af starfs­fólki og læknum H.S.H. spítalans sem settu hann á sterka lyfja­með­ferð,“ segir í yfir­lýsingu Hawa­ii In­nocence Project.

„Það er skiljan­legt að hr. Spriesters­bach hafi verið í upp­námi þegar hann var rang­lega fangelsaður fyrir glæpi hr. Cast­leberry og þrátt fyrir að neita því stöðugt að vera hr. Cast­leberry og veita yfir­völdum allar við­eig­andi per­sónu­upp­lýsingar og fjar­vistar­sannanir fyrir því hvar hann var þegar hr. Cast­leberry var dæmdur, þá vildi enginn trúa honum eða að­hafast neitt til að stað­festa frá­sögn hans og komast að sann­leikanum – að hann var ekki hr. Cast­leberry.“

Enginn hlustaði á hann

Enginn hlustaði á beiðni Spriesters­bach, ekki einu sinni verj­endur hans, þar til að geð­læknir á spítalanum gekk loks í málið. Það þurfti svo aðeins ein­falda Goog­le leit og nokkur sím­töl til að komast að því að Spriesters­bach var á annarri eyju þegar Cast­leberry var hand­tekinn.

Geð­læknirinn fékk rann­sóknar­lög­reglu­mann til að koma á spítalann sem stað­festi að rangur maður hefði verið hand­tekinn með ljós­myndum og fingra­förum Spriesters­bach. Jafn­framt komst hann að því að Cast­leberry hefði verið í fangelsi í Alaska frá árinu 2016. Spriesters­bach hafði þá verið í vistaður á geð­spítalanum í tvö ár og átta mánuði.

Þegar fingra­förin og ljós­myndirnar höfðu verið stað­fest héldu yfir­völd leyni­legan fund án Spriesters­bach og flýttu sér að sleppa honum í janúar 2020. Lög­menn hans segja að yfir­völd hafi vonast til þess að enginn myndi trúa honum eða að öllum yrði ein­fald­lega sama um ör­lög hans.

Hræddur um að verða hand­tekinn aftur

Spriesters­bach, sem er fimm­tugur, býr nú hjá systur sinni Vedanta Griffith í Ver­mont en hann hafði upp­runa­lega flutt með henni og eigin­manni hennar til Hawa­ii árið 2003. Spriesters­bach hafði síðan látið sig hverfa og segist Griffith hafa eytt næstu sex­tán árum í leit að bróður sínum.

Griffith segir lög­reglu­yfir­völd í Hawa­ii hafa notað orð bróður síns gegn honum sem rök­stuðning fyrir því að hann væri veru­leika­firrtur.

„Og svo þegar varpað er ljósi á mis­tökin, hvað gera þeir þá? Þeir færa það ekki einu sinni til bókar. Þeir láta það ekki vera part af málinu. Og svo koma þeir ekki sinni til hans og biðjast af­sökunar. Hvað með að segja bara ‚Hey, þetta var ekki þú. Þú hafðir rétt fyrir þér allan tímann?“ segir hún í sam­tali við blaða­menn Associa­ted Press.

Að sögn Griffith neitar Spriesters­bach nú að yfir­gefa landar­eign hennar.

„Hann er svo hræddur að þeir muni ná honum aftur,“ segir hún.