Um 30 til 40 smit hafa komið upp í grunnskólum. Smitin eru dreifð og í mörgum skólum og er ekki um stórt hópsmit að ræða. Í einangrun eru 169 börn frá aldrinum 6 til 17 og 47 börn á aldrinum 1 til 5.

Nýjar reglur tóku gildi við upphaf skólaársins sem gerir það að verkum að færri þurfa að sæta sóttkví en áður ef smit kemur upp meðal nemenda í skólum. Guðrún Aspelund, yfirlæknis á sóttvarnasviði Embættis landlæknis vonar að það geri skólastarfið auðveldara.

„Þetta er rétt að fara í gang en við vonum að þetta hafi ekki eins hamlandi áhrif bæði í skólanum og á vinnustöðum. Það er markmiðið en auðvitað þarf að vera jafnvægi,“ segir Guðrún.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir smitgátina að vísu vera ákveðna áhættu sem þau séu þó tilbúin að taka.

„Ég held að þessi ákvörðun um það að beita smitgátinni til hliðar við sóttkvína er til að eitt smit valdi ekki eins miklum áhrifum eins og við sáum áður og það er auðvitað það sem við vorum að freista þess að gera. Við auðvitað vitum að þar með erum við að taka meiri áhættu en við töldum að sú áhætta væri í lagi,“ sagði Svandís í samtali við Fréttablaðið fyrir utan Ráðherrabústaðinn að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Örvanarskammtar bóluefna gegn Covid-19 virðast byrjaðir að segja til sín en síðustu daga hafa talsvert fleiri óbólusettir einstaklingar greinst með COVID-19 en þeir sem eru bólusettir.

Er þetta vísbending um vörn örvunarskammta?

„Ja, það er spurning. Það er ekki langt síðan við byrjuðum að gefa þessa örvunarskammta. Við getum ekki verið alveg viss en það er klárlega vörn í bólusetningunni. Svo fer það eftir aldurshópum og slíku,“ segir Guðrún.

Guðrún Aspelund yfirlæknis hjá Landlækni.

Heilbrigðisráðherra segir nýjustu tölur í samræmi það sem vitað er um bólusetningar.

„Þetta er náttúrulega tilhneigingin sem við höfum séð alveg frá byrjun fjórðu bylgju, að það er hlutfallslegur fjöldi þeirra sem eru óbólusettir sem eru að veikjast,“ segir Svandís og hvetur öll þau sem eiga eftir að fara í bólusetningu að gera það.

„Við vitum að bólusetningin ver okkur ekki bara gegn alvarlegum veikindum heldur líka smitum og það hvetur okkur öll til þess að sinna því að fara í bólusetningu.“