Alls eru 42 íslensk mál til efnismeðferðar hjá Mannréttindadómstól Evrópu. Þetta kemur fram í skriflegu svari ríkislögmanns við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Mál þessi hafa öll verið tekin til efnismeðferðar og eru á mismunandi stigi. Beðið er dóms í nokkrum þeirra eða ákvörðunar dómstólsins um staðfestingu á sátt eða einhliða yfirlýsingu. Í öðrum á ríkið eftir að skila athugasemdum, að því er fram kemur í svarinu.

Langflest þessara mála varða brot á 6. gr. sáttmálans um réttláta málsmeðferð fyrir óvilhöllum og óháðum dómstól.

Nærri helmingurinn eða nítján mál, tengjast Landsréttarmálinu svokallaða. Um er að ræða mál sem dómararnir fjórir sem ekki voru skipaðir við réttinn í samræmi við lög, tóku þátt í að dæma.

Mannréttindadómstóllinn bauð ríkinu að gera sátt við kærendur í málum þessum með vísan til hins fordæmisgefandi dóms sem kveðinn var upp í yfirdeild réttarins.

Í flestum málanna náðust þó ekki sættir þar sem ríkið hafnaði bótakröfum kærenda og krafðist þess í kjölfarið að dómstóllinn felldi málin niður. Ekki liggur enn fyrir hvort fallist verði á þá kröfu eða hvort málunum verði lokið með dómi að lokinni hefðbundinni efnismeðferð.

Sex hrunmál og tíu kynferðisbrotamál

Meðal annarra mála sem til meðferðar eru ytra má nefna sex mál sem varða vanhæfi dómara vegna hlutabréfaeignar þeirra í föllnu bönkunum eða vegna vensla. Er hér um að ræða síðustu málin sem tengjast efnahagshruninu.

Tíu mál varða rannsókn lögreglu á kynferðis- og öðrum ofbeldisbrotum og sjö mál varða ýmis önnur brot á sáttmálanum.

Sáttaumleitan innbyggð í málsmeðferðina

Þegar dómstóllinn hefur tekið ákvörðun um að mál fái efnislega meðferð, fær ríkið tilkynningu um að það sé til meðferðar og er ríkinu veittur frestur til að leita sátta við kærandann. Þá getur ríkið einnig gefið út einhliða yfirlýsingu um að það viðurkenni brot. Þegar ljóst er að sættir verði ekki og yfirlýsing ekki gefin út, tekur ríkið til varna og skilar athugasemdum sínum til dómsins.

Kæranda gefst svo kostur á að senda inn athugasemdir við málflutning ríkisins.

Þegar sjónarmið beggja aðila hafa borist dóminum er málið tekið til dóms en á þessu stigi getur dómurinn enn ákveðið að vísa málinu frá dómi að hluta eða öllu leyti.

Langflestum málum vísað frá

Yfirgnæfandi meirihluta þeirra mála sem kærð eru til Mannréttindadómstólsins er vísað frá dómi. Alls bárust dómstólnum 35 mál á síðasta ári og var 33 þeirra vísað frá dómi.

Málin tvö sem komust í gegnum síuna eru mál Kára Orrasonar og Borys Andrzej Ejryzew sem hlutu dóm í kjölfar mótmæla við dómsmálaráðuneytið og kæra vegna meintra brota gegn ákvæði Mannréttindasáttmálans um tjáningar- og fundafrelsi