Annar dyravarðanna sem varð fyrir árás fyrir utan Shooters í ágúst á liðnu ári segir líf sitt hafa gjörbreyst eftir árásina. Þá hafi það verið mikið áfall að sjá samstarfsmann sinn liggja á gólfinu, stórslasaðan eftir átök við hóp manna á skemmtistaðnum. Hann hafi ekki vitað hvort maðurinn væri lífs eða liðin, en í ljós kom síðar að hann hafi lamast fyrir neðan háls eftir árásina.

Rætur ágreinings plastglas á Shooters

Aðalmeðferð í Shooters-málinu hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Teknar voru skýrslur af sakborningunum tveimur, þeim Artur Pawel Wisocki og Dawid Kornacki sem báðir sögðu dyraverðina hafa verið neikvæða í sinn garð frá því þeir gengu inn á skemmtistaðinn ásamt hópi manna. 

Sjá einnig: Baðst undan á­horfi: „Heimsku­legasta sem ég hef gert“

Fyrir dómi lýsti dyravörðurinn því hvernig hann og samstarfsmenn hans hafi lent í útistöðum við einn viðskiptavin Shooters eftir að hann neitaði að setja drykk sinn í plastglas. Honum var því vísað af staðnum og var umræddur hópur ósáttur með þá framkomu og mótmælti með þeim afleiðingum að þeim var einnig vísað frá skemmtistaðnum Líkt og greint var frá í morgun sneri hópurinn aftur stuttu síðar veittust að dyravörðunum. Hvorki Dawid né Artur gátu greint frá því hvers vegna hópurinn kaus að snúa aftur. 

Umkringdur 

Í upptöku sem sýnd var í héraðsdómi í morgun sést hvernig mennirnir koma aftur á skemmtistaðinn með miklu offorsi. Sagðist maðurinn hafa verið á klósettinu þegar mennirnir sneru aftur, en sagði þá hafa verið fimm eða sex. Samstarfsmaður hans hafi þá kallað eftir hjálp og hlaupið á brott, en verið eltur uppi. Sjálfur sagðist hann hafa reynt að stöðva mennina og þeir þá veist að honum, fyrir utan skemmtistaðinn. „Þá er ég umkringdur fjórum mönnum sem lömdu mig með öllu sem þeir gátu,“ hafði túlkur eftir vitninu í héraðsdómi. 

Árásarmennirnir hafi svo á endanum yfirgefið svæði og hann séð vin sinn og samstarfsfélaga liggja í gólfinu. Hann hafi reynt að tala en ekki getað það. Fyrir dómi tók vitnið það fram að hinn slasaði hafi verið honum eins og bróðir og hann hafi verið í miklu áfalli. „Ég trúði því ekki hvað hafði komið fyrir besta vin minn, hann var eins og bróðir minn,“ sagði hann og tók fram að hann hafi ekki vikið frá honum þar til hann var fluttur á brott með sjúkrabíl. 

Veik ekki frá vini sínum

„Ég var hjá honum allan tímann en fékk ekki leyfi til þess að fara með honum,“ hafði túlkur eftir vitninu í dómssal en hann tók það fram að dyravörðurinn væri honum sem bróðir. Sagði hann árásina hafa haft mikið á hann, hann hefði misst vinnuna og ætti erfitt með svefn. Hann hefði þó ekki velt eigin verkjum mikið fyrir sér á sínum tíma því hugur hans hefði einfaldlega verið hja vini hans. 

Þinghaldi var frestað til klukkan tvö í dag. Í millitíðinni fer dómari með sækjanda, verjendum og réttargæslumanni á Landspítalanum til þess að taka skýrslu af hinum dyraverðinum.