Töluverðar líkur eru á að Albert Klahn Skaftason hafi játað aðild sína að meintu manndrápi Guðmundar Einarssonar í janúarmánuði árið 1974 sökum þess hve takmarkaða trú hann hafði á eigin minni, lágs sjálfsmats og skorts á gagnrýnni hugsun. Síðari dagur meðferðar í Hæstarétti í endurupptöku málsins fer fram í dag.

Guðjón Ólafur Jónsson, verjandi Alberts, talaði á svipuðum nótum og verjendur hinna dómfelldu í málinu. Að ekki hafi verið næg sönnunargögn til staðar til að sakfella þá en komið hefur fram að dómurinn umdeildi hafi einungis byggt á játningum hinna ákærðu.

Albert hlaut upprunalega fimmtán mánaða dóm fyrir tálmun í rannsókn á meintu manndrápi Guðmundar Einarssonar, dreifingu og sölu fíkniefna. Dómurinn var síðar mildaður niður í 12 mánuði í Hæstarétti árið 1980. Var Alberti gefið að sök að hafa hjálpað til við flutning á líki Guðmundar aðfaranótt 27. janúar 1974.

Hann var yfirheyrður sem vitni þann 23. desember 1975 og segir Guðjón að Albert hafi þá kvaðst hafa ekið um á Toyota bifreið með farangursgeymslu. Það hafi verið einkennilegt þegar betur var að gáð þar sem eina bifreiðin sem Albert hafði til umráða var Volkswagen bifreið föður síns.

Eftir að slíkt kom í ljós hafi framburður hans breyst og hann sagst hafa tekið þátt í líkflutningum Guðmundar ásamt þeim Sævari Marinó Ciesielski, Kristjáni Viðari Viðarssyni og Tryggva Rúnari Leifssyni á téðri Volkswagen bifreið. Var Alberti gert að hafa tekið þátt í flutningum á líki Guðmundar tvisvar, annars vegar kvöldið sem hann hvarf og hins vegar síðar um sumarið þegar hópurinn átti að hafa flutt lík hans á annan stað.

Sefjun og dáleiðsla sálfræðinga og geðlæknis

Albert sat samtals í einangrun í 88 daga. Hann var, á meðan gæsluvarðhaldi stóð, yfirheyrður í 26 skipti og þá var hann sendur í ellefu vettvangsferðir. Þá er samanlögð skráð lengd viðtala og yfirheyrslna minnst sautján klukkustundir. Þó sé afar líklegt að sá tími sé lengri þar sem ljóst er að viðtöl og yfirheyrslur voru í mörg tilvika ekki skráð niður. Samkvæmt fangelsisdagbók í Síðumúlafangelsinu, þar sem dómfelldu sátu, hitti Albert Klahn verjanda sinn alls fjórum sinnum.

Í síðustu skýrslutökunni sem lögregla tók af Alberti hafi hann verið viðstaddur með lögmanni sínum en þar kvaðst hann ekki hafa verið staddur í Hafnarfirði í janúarmánuði 1974. Þar hafi hans vegar verið í septembermánuði 1975.

Takmörkuð trú á eigin minni

Á þeim tíma sem hann sat í einangrun hafi hann sætt sefjunarmeðferð og dáleiðslu en lögregla fékk til þess sálfræðing og geðlækni. Guðjón Ólafur segir það skýrt merki þess hve miklir annmarkar hafi verið á rannsókninni og ljóst að lögregla hafi þurft að knýja fram játningu með því að hafa áhrif á minni Alberts.

„Það hversu fljótt Albert Klahn Skaftason játaði aðild sína að Guðmundarmálinu má skýra með því hversu takmarkaða trú hann hafði á minni sínu, með lágu sjálfsmati og skorti á gagnrýnni hugsun. Sú staðreynd að lögregla fékk geðlækni og sálfræðing til verksins lýsir í hversu miklum vandræðum hann var að rifja upp atvik málsins og meinta aðild og þátttöku í hvarfi Guðmundar.“

Sól úti, sól í hjarta

Það gefi því augaleið að framburðir Alberts Klahn í lögregluskýrslum, fyrir sakadómi Reykjavíkur og Hæstarétti hafi verið óáreiðanlegir. Engin ummerki hafi fundist og engar áþreifanlegar sannanir hafi verið í málinu. Játning Alberts og hinna dómfelldu hafi verið fram knúin til sakfellingar í málinu og er þess krafist að hann verði sýknaður í málinu

„Það er sól úti, látum vera sól í hjarta okkar,“ sagði háfleygur Guðjón Ólafur að lokum um leið og hann fór fram á að Albert Klahn Skaftason yrði sýknaður í málinu vegna meintrar þátttöku að hvarfi Guðmundar Einarssonar.