Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, á ekki von á því að atvinnuástandið hér á landi batni fyrr en bólusetning hefjist.

Fram kom í máli hennar á upplýsingafundi almannavarna í dag að stofnunin hafi ekki gert spár fyrir næsta vor en að hún telji að staðan verði líklega óbreytt fram í mars.

Hún sagði stefna í 12,2% atvinnuleysi í desember og að um 25 þúsund manns væru nú án atvinnu að hluta eða öllu leyti. Aldrei áður hafi sést slíkar tölur hér á landi.

„Það eru svo margir óvissuþættir, það er þetta bóluefni sem hefur mjög mikið að segja. Ég held að það verði mikill skurðpunktur þegar það verður byrjað að bólusetja vegna þess að þá verða náttúrulega miklar væntingar um að allt fari af stað,“ sagði Unnur.

„Á meðan þetta er allt óbreytt þá sé ég ekki að atvinnuástandið batni og forsendur séu til þess fyrr en við sjáum fyrir endann á þessu ástandi.“

Með því gerði hún þó ekki ráð fyrir auknu atvinnuleysi á næsta ári heldur sambærilegum tölum.

„Við höfum verið að spá um 12%+ atvinnuleysi um áramót þannig að ég á ekki von á að þetta fari að lagast strax.“

Að óbreyttu verði ástandið svipað fram í mars en þó séu allar líkur á því að atvinnuástandið batni með vorinu vegna árstíðarbundinnar sveiflu sem sjáist á hverju ári.

Framlengdu bótatímabilið eftir hrunið

Á Morgunvaktinni á Rás 2 í dag benti Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður Bandalags háskólamanna, á að í októberlok hafi yfir 3.600 einstaklingar verið búnir að vera án atvinnu í eitt ár eða lengur. Eru það tvö þúsund fleiri en á sama tíma í fyrra.

Aðspurð út í þessa stöðu sagði Regína Ásvaldsdóttir, sviðstjóri Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, á upplýsingafundinum að hún teldi mikilvægt að 30 mánaða bótatímabil atvinnuleysisbóta verði lengt.

Eftir að hafa verið í samfellt 30 mánuði á atvinnuleysisbótum þurfi fólk að reiða sig á fjárhagsstuðning sveitarfélaganna sem sé minni en upphæð atvinnuleysisbóta.

„Fólk sem hefur verið atvinnulaust, er detta út núna og fær hvergi vinnu þá er sveitarfélagið eini kosturinn, þannig að ég tel mjög mikilvægt að lengja þetta tímabil,“ sagði Regína.

Unnur sagði að líkt og alltaf væri lengd bótatímabilsins pólitískt álitamál. Í samanburði við hin Norðurlöndin sé tímabilið lengst hér á landi en eftir bankahrunið hafi stjórnvöld brugðist við slæmu atvinnuástandi með því að framlengja bótatímabilið með bráðabirgðaákvæðum.

„Það síðan rann sitt skeið þegar efnahagslífið tók við sér og ég get ímyndað mér að það sama gerist núna ef þetta fer að dragast enn meira á langinn,“ sagði Unnur.

Hvatti atvinnurekendur til þess að ráða fólk

Unnur lagði áherslu á að það væri mjög erfitt fyrir fólk að vera atvinnulaust í heilt ár eða lengur og kallaði eftir því að fyrirtæki nýttu sér það úrræði að ráða atvinnulaust fólk í vinnu með styrk frá Vinnumálastofnun.

Með því fái atvinnurekendur greiddar 100% grunnatvinnuleysisbætur auk framlags í lífeyrissjóð til að ráða atvinnuleitanda í allt að hálft ár.

„Með þessu móti geta þeir fengið afbragðs starfsfólk tímabundið inn og veitt starfsfólki tækifæri til að afla sér nýrra meðmæla til að sanna sig, kannski fólk sem búið að vera töluvert lengi í atvinnuleit. Þetta er mikið búst fyrir það svo þetta er beggja hagur.“