Reiknilíkön Veðurstofunnar gera ekki ráð fyrir því að gasmengun frá eldgosinu í Meradölum trufli Gleðigönguna og hátíðarhöldin á Hinsegin dögum sem fram fara í dag.

„Það er hætta á einhverri móðu en ekki að hún verði truflandi,“ segir Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur. Vindáttin hefur smám saman verið að snúast í suðvestanátt en reiknilíkön gera hins vegar ekki ráð fyrir gasmengun við yfirborð.

Með kvöldinu gæti hins vegar mælst gasmengun við suðurströnd landsins, til dæmis á þéttbýlisstöðum eins og í Þorlákshöfn og við Eyrarbakka.

Hægt er að fylgjast með mælingum á netinu á vedur.is, appelsínugulum hnappi merktum Reykjanesskaga. Einnig rauntímagildum á loftgaedi.is.