Mikið hefur verið fjallað um inni­lokanir barna og jafn­vel of­beldi gegn þeim í skólum. Í Reykja­vík eru starfandi tvö far­teymi sem vinna að því að koma í veg fyrir að málin verði svo slæm. Lína Dögg Ást­geirs­dóttir leiðir eitt slíkt teymi.

„Við erum oft að vinna með al­var­legustu málin í borginni. Það er gott að vinna í teymi með for­eldrum eða for­ráða­mönnum, skóla barnsins og þjónustu­mið­stöð, sem getur sótt um að­stoð fyrir for­eldra,“ segir Lína Dögg, teymis­stjóri far­teymi Vestur, og að það sé sem fyrr segir ýmis­legt í boði og að það sé allt gert til að leita lausna, fyrir alla, þegar erfið mál koma upp.

Hvernig heldurðu að við endum þá í þessari stöðu, þessum her­bergjum sem börn eru lokuð inni í?

„Hjá okkur er það þannig að við fáum mál og það fyrsta sem er gert er að út­hluta því tveim ráð­gjöfum. Þeir byrja á því að fara í massíft á­horf, og það er allur skóla­dagurinn. Hjá um­sjónar­kennara, list- og verk­greinar, frí­mínútur og frí­stund. Þá skoðum við og kort­leggjum skóla­daginn – að­stæður og um­hverfi barnsins,“ segir Lína Dögg.

Við erum oft að vinna með al­var­legustu málin í borginni.

Hún segir að barnið viti þá ekki af heim­sókninni en að það geri það síðar. Í kjöl­farið á teymið svo sam­tal við alla aðila innan skólans sem komi að menntun og um­önnun barnsins, for­eldra barnsins og svo, ef barnið hefur þroska, ræða þau einnig við það.

„Börn eru svo miklir sér­fræðingar í eigin líðan og at­læti og það er ó­trú­legt hvað þau geta sjálf sagt um sína upp­lifun og líðan. Eitt­hvað sem við full­orðna fólkið erum kannski ekki að taka eftir og það kemur okkur oft skemmti­lega á ó­vart,“ segir Lína Dögg.

Hún segir að þegar þessum upp­lýsingum hafi verið safnað saman og rætt við alla sem að málinu koma, þá sé sett af stað að­gerða­á­ætlun um hvernig eigi að hjálpa barninu með að líða betur í skólanum.

„Það snýst um að vera á gólfinu í skólanum og hjálpa barninu í sínu náms­um­hverfi. Þá erum við þátt­tak­endur í skólanum og inn­leiðum okkur að­ferðir. Fyrst erum það al­farið við sem sinnum barninu og svo hjálpum við starfs­fólkinu að taka við reipinu og nota okkar að­ferðir. Okkar aðal­starf með börnum með hegðunar­erfið­leika er að inn­leiða fyrir­byggjandi að­ferðir og að koma í veg fyrir að börn missi kúlið og taki þessi „melt­down“ eða æðis­köst,“ segir Lína Dögg.

Reiði­köst fara dvínandi

Hún segir að það séu margs konar leiðir sem þau nýti til þess. Þau að­laga náms­efni, út­búa skýrt dag­skipu­lag, búa til tíma­lotur þannig að nemandi vinni stutt í einu og fái pásur á milli, skoða hvar barnið er stað­sett í skóla­stofunni og hvernig við­mótið er, hvort þau fá at­hygli fyrir hegðun sem væri hægt að hunsa og svo hvernig hægt er að hjálpa með fé­lags­færni, reiði­­stjórnun og fleiri leiðir sem miða allar að því að barninu líði betur í sínu skóla­um­hverfi.

„Alla­jafna gengur þetta vel og reiði­köst fara dvínandi en það eru börn sem taka reiði­köst og þess vegna búum við líka til við­bragðs­­á­ætlun. Bæði til að tryggja öryggi barnsins og annarra í kringum það,“ segir Lína Dögg og meinar þá kennara, önnur börn og starfs­fólk skólans.

Alltaf er unnið með barninu að lausn í þeirra máli.
Fréttablaðið/Ernir

Of­beldi barna líka al­var­legt

Hún segir að þegar talað er um að börn beiti of­beldi þá kannski viti fólk ekki al­menni­lega hversu al­var­legt það getur orðið. Börnin kasta stólum og borðum eða ráðist á starfs­fólk og úr því geta skapast virki­lega hættu­lega að­stæður fyrir barnið fyrst og fremst, en einnig önnur börn og starfs­fólk.

„Þegar börn sýna ógnandi hegðun eða of­beldi þá viljum við vera búin að finna gott rými í skólanum þar sem þau geta farið með okkur til þess að róa sig niður. Undan­farinn á slíku er alltaf sá að við förum og tölum við barnið, út­skýrum fyrir því hvar rýmið er og til hvers það er, stundum vilja börnin gefa því nafn, þau geta verið alls konar, en þetta er ekki hugsað sem refsing,“ segir Lína Dögg á­kveðin.

Hún segir að börnin gefa rýminu oft sjálf skemmti­leg og lýsandi nöfn eins og hreiðrið, kæli­rýmið mitt, minn staður og fleira.

„Mér finnst mjög sárt að horfa á barn sem missir sig, þar sem tauga­kerfið er í botni í fram­heilanum og barnið hefur al­gjör­lega misst alla stjórn. Barninu líður skelfi­lega illa og það missir sig fyrir framan alla. Það er sárt og auð­vitað ó­öruggt fyrir alla í þessum að­stæðum. Rýmið er því leið til að barnið eigi út­göngu­leið úr þessum að­stæðum sem það ræður ekki við og þar fær barnið tæki­færi til að ná andanum aftur,“ segir Lína Dögg.

Hún segir að þegar komið er inn í rýmið sé alltaf sami aðilinn sem á­varpi barnið og það er aldrei með þeim hætti að því sé bent á að það sé núna komið í rýmið vegna ein­hvers sem það gerði, heldur sé barninu sagt að þau sjái hvernig því líður og að þau skilji og sjái að barninu líði ekki vel eða sé ó­sátt og reitt. Hér er verið að viður­kenna til­finningar barnsins á þessari stundu.
Hún segir að flest börnin gangi sjálf í her­bergið en að ef þurfi þá séu sér­stök hand­tök, sem starfs­menn eru þjálfaðir í að nota til þess að hjálpa barninu úr erfiðum að­stæðum.

Eruð þið þá að bera barnið inn?

„Já, við þurfum stundum að gera það og það er eitt­hvað sem mann langar aldrei að gera, en við erum allan tímann að spyrja barnið hvort það vilji ganga sjálft. En ef það sparkar í þig þá er það orðið svo­lítið erfitt. En alla jafna þá kunna þau þetta og labba sjálf. Börn eru fljót að átta sig á því að rýmið er engin refsing heldur út­göngu­leið úr að­stæðum sem þau ráða ekki við á þeirri stundu og oft komast þau á þann stað að biðja að fyrra bragði um að fá að fara í rýmið, því þau finna að þau eru að missa tök á skapinu eða að­stæðum og það er ein­mitt svo frá­bært þegar þau eru komin á þann stað,“ segir Lína Dögg.

Á ekki að vera refsing

Hún segir að í um­ræðum um slík rými og her­bergi hafi heyrst að börnunum sé refsað með því að fá ekki að fara í frí­mínútur eða list- og verk­greinar eða eitt­hvað slíkt. En segir að það sé alls ekki þannig hjá þeim, börnunum sé ekki refsað á þann hátt, og að þau séu alltaf í sam­tali við barnið um hvað henti því á þessari stundu og hvort þau treysti sér í, til dæmis, há­degis­mat eða í­þróttir eða hvað sem það er, ef þau eru í reiði­kasti.

Það þurfi alltaf að meta að­stæður vel í sam­ráði við barnið og hjálpa því að átta sig á eigin líðan og hvaða að­stæður þau treysti sér í hverju sinni.

Lína Dögg segir að rýmin sem um ræðir geti verið alls konar. Stundum er þetta skóla­stofa sem er alla jafna ekki í notkun, rými undir stiga, fundar­her­bergi, stiga­pallur, Ikea tjald eða bara hvað sem hentar hverju barni og að­stæðum.

„En þetta er alltaf síðasta úr­ræðið. Það er ekki það sem við erum að gera allan daginn. En við viljum alltaf hafa plan, því við viljum ekki að ein­hver slasist illa og við viljum ekki gera barninu það að vera að missa sig í að­stæðum sem það ræður ekki við og komast ekki úr þeim. Mér finnst það sann­gjarnt fyrir þessi börn að þau eigi út­göngu­leið úr svona að­stæðum,“ segir Lína Dögg.

„Við erum ekki að horfa á þetta sem refsingu og það er skelfi­legt að vita til þess að börn hafi verið lokuð inni í glugga­lausum rýmum, ef satt er. Það er ekki eitt­hvað sem far­teymin ráð­leggja, aldrei,“ segir Lína Dögg, sem segir á­kveðin það aldrei vera í lagi.
Hún segir að þeirra aðal­starf sé að að­laga skóla­um­hverfi barna að þeirra þörfum með fyrir­byggjandi að­ferðum. Teymin miði við það að taka þrjár til tólf vikur í að vinna hvert mál. Eftir það þurfi kennari og annað starfs­fólk að halda við þeim breytingum sem hafi verið gerðar í skóla­um­hverfi barnsins.

„Við setjum alls konar mark­mið með barninu en það er núll þol fyrir því að barn beiti of­beldi. Við getum ekki verið í að­stæðum þar sem að barn kastar stólum eða meiðir önnur börn,“ segir Lína Dögg.

Börn eru fljót að átta sig á því að rýmið er engin refsing heldur út­göngu­leið úr að­stæðum sem þau ráða ekki við á þeirri stundu og oft komast þau á þann stað að biðja að fyrra bragði um að fá að fara í rýmið, því þau finna að þau eru að missa tök á skapinu eða að­stæðum og það er ein­mitt svo frá­bært þegar þau eru komin á þann stað

Mörg að bíða eftir greiningum

Hún segir börnin sem þau þjónusta ekki endi­lega eiga eitt­hvað eitt sam­eigin­legt en að þau séu mörg að bíða eftir greiningum, séu á lyfjum eða bíði þess að komast á þau.

„Það er ekkert barn sem kemur inn í skólann sinn á morgnana á­kveðið í að í dag ætli það að vera vont við ein­hvern eða meiða ein­hvern. Það liggur svo margt fleira að baki, eins og van­líðan eða að­stæður sem eru of krefjandi fyrir barnið. Það er okkar hlut­verk að að­laga að­stæður í skólanum að þörfum hvers barns fyrir sig.“

„Við erum alltaf að leita að styrk­leikum barnsins og hvað þetta barn getur og kann. Við vinnum með styrk­leikana fyrst og fremst,“ segir Lína Dögg og að það sé allt gert til að barnið fái að þrífast vel í sínu skóla­um­hverfi. Það geti líka þýtt að hefð­bundið nám sé lagt til hliðar og barninu boðið að leysa önnur verk­efni um stund. Það getur verið sem dæmi að perla.

Stundum eru börn komin með stimpil því það hefur verið erfitt og stundum þarf að vinna með það. Að hjálpa fólki að sjá barnið í nýju ljósi og gefa barninu nýtt tæki­færi

Biðin ekki löng

Lína Dögg segir að það séu bið­listar eftir því að koma í þjónustu far­teymisins en að biðin eigi aldrei að vera löng og að þau nái að anna öllum málum. Spurð hvort það þurfi að út­víkka og stækka þjónustuna segir Lína Dögg að í al­gerum drauma­heimi væri það raun­veru­leikinn.

„Þegar við byrjuðum vorum við auð­vitað nýtt úr­ræði. Við vorum að koma inn í skólana, á gólfið hjá öðrum, sem er eðli­lega erfitt og flókið en núna þekkja skólarnir okkur og verk­lagið sem við vinnum eftir og úr­ræðið hefur gefið mjög góða raun. Það er tekið vel á móti okkur og við fáum góða sam­vinnu með bæði starfs­fólki skólanna sem og for­ráða­mönnum barnanna,“ segir hún.

Hún segir úr­ræðið tví­þætt. Þau vinni á gólfinu í skóla­um­hverfi barnsins og leggi á­herslu á að vinna á þann hátt en að stundum komi líka börn til þeirra í skóla­úr­ræði far­teymanna og að þau séu þá þar í allt að þrjár til fimm vikur.

„Það er oft þegar við þurfum að kort­leggja betur hegðun og heimilis­að­stæður barns. En fyrst og fremst sjáum við að oft er gott að núll­stilla að­eins og það hefur reynst mjög vel og svo er farið í að að­laga barnið aftur í sinn heima­skóla,“ segir Lína Dögg.

Fleiri drengir en stúlkur

Börnin eru á öllum aldri , frá fyrsta bekk upp í 10. bekk. Það eru fleiri drengir en stúlkur og þau flest á mið­stigi en jafn­framt mikil aukning á fyrsta stigi.

„Ég hef unnið í skóla­úr­ræði í um ellefu ár og al­mennt höfum við verið að sjá aukningu í al­var­legum hegðunar­vanda hjá börnum og of­beldis­hegðun, og það er auð­vitað mjög al­var­legt mál,“ segir Lína og að börnin beiti bæði sam­nem­endur og kennara of­beldi.

Hún segir að það geti margt haft á­hrif á aukningu í hegðunar­vanda barna en telur, miðað við rann­sóknir, að skjá­notkun geti haft mikil á­hrif því að börn læri ekki sjálfssefjun.

„Það er kannski svona mín á­giskun en svo er það líka stað­reynd að við í nú­tíma þjóð­fé­lagi erum við að lifa hratt þar sem sá tími sem for­eldrar og börn hafa saman virðist alltaf vera að skerðast og ofan í það kemur líka allur sá tími sem fer í skjá­notkun. Ég ætla auð­vitað ekkert að al­hæfa um þetta en ég tel að þetta hafi allt saman á­hrif á líðan barna og þar með hegðun. For­eldrar detta í það að sefa börnin sín, jafn­vel undir tveggja ára, með því að rétta þeim skjá. Svo koma þau í skóla og eiga að lesa um Ásu eða Litlu gulu hænuna og það er kannski ekki jafn spennandi,“ segir Lína Dögg sem segist mjög uggandi yfir aukinni skjá­notkun barna frá unga aldri.

Kennarar vilja aðstoð

Lína Dögg segir að far­teymin hafi orðið til þegar kennarar voru hrein­lega að brenna út og að þeirra vinna sé að miklu leyti að styðja við kennara. Þegar ráð­gjafar farteymisins koma inn á gólfið að þá sé oft mikið búið að vera í gangi og þetta geti verið flókið ferli.

„Við höfum alveg lagt til að barn skipti um bekk, fái nýjan kennara eða nýjan stuðnings­full­trúa eða jafn­vel að það skipti um skóla. Það er ekkert endi­lega vegna þess að kennarinn eða stuðnings­full­trúinn var ekki nógu góður. Stundum þarf bara að hvíla því þetta er svo erfitt fyrir alla, starfs­menn og barnið sjálft,“ segir Lína Dögg og bætir við:

„Stundum eru börn komin með stimpil því það hefur verið erfitt og stundum þarf að vinna með það. Að hjálpa fólki að sjá barnið í nýju ljósi og gefa barninu nýtt tæki­færi.“

Hún segir að allt sem að þau geri fyrir börnin sem eru í þeirra þjónustu fái skólarnir af­hent raf­rænt og þannig séu far­teymin á sama tíma að vinna að því að byggja upp inn­viði skólanna. Skólarnir geti nýtt það sem þau eru að fá til sín raf­rænt vegna til­tekins barns fyrir önnur börn í sams­konar vanda.