Fyrsta umræða um frumvarp um að fæðingarorlof verði lengt fór fram á Alþingi í gærkvöld.
Frumvarpið var samþykkt þann 17. nóvember síðastliðinn, en það kveður á um að fæðingarorlof verði lengt en að foreldrar skipti jafn milli sín fjölda mánaða í orlofi, hvort foreldri um sig fái þannig sex mánaða orlof. Leyfilegt er þó að skipta á einum mánuði og fengi þannig annað foreldri sjö mánuði í orlof en hitt foreldri fimm. Þó eru gerðar undanþágur ef annað foreldri umgengst ekki barnið, sætir nálgunarbanni gagnvart hinu foreldrinu eða annað slíkt.
Um umtalsverða breytingu er að ræða því lengst af hefur fæðingarorlof á Íslandi verið níu mánuðir, þrír mánuðir á hvort foreldri og þrír til skiptanna. Helsta ágreiningsmálið varðandi nýja frumvarpið er hvernig skipta eigi orlofinu á milli foreldra en fjölmargar umsagnir bárust í samráðsgátt stjórnvalda um frumvarpið.
Flestar umsagnirnar voru á sama máli um að lenging orlofsins sé af hinu góða, en ýmsir setja þó spurningarmerki við þá ráðstöfun að festa sex mánuði á hvort foreldri allt orlofið með þessum hætti í stað þess að gefa foreldrum meira frelsi til að skipta því sín á milli.
Foreldrar eigi rétt á meiri sveiganleika
Þingmenn tókust á um málið á þingfundi í gærkvöld en Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks og nefndarmaður í velferðarnefnd studdi þá tillögu sem kallað hefur verið eftir um að hvort foreldri fyrir sig fái fjóra mánuði en þá verði fjórir mánuðir til skiptanna.
Hann telur það ekki eiga að vera í höndum stjórnvalda að ákveða skiptingu fæðingarorlofs með tilheyrandi forræðishyggju.
Ljósmæður og embætti landlæknis hafa meðal annarra tekið undir með því sjónarmiði, að best væri að veita foreldrum sveigjanleika til að skipta orlofinu sín á milli.

Sanngjarnt að karlar og konur fái jafn langt orlof?
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata gagnrýndi hámarksupphæð sem greidd er út í fæðingarorlofi, en sú upphæð hefur verið hækkuð í nýja frumvarpinu, foreldrar geta haft 80 prósent af tekjum síðasta árs en að hámarki sex hundruð þúsund krónur á mánuði.
Vildi hún meina að annað hvort báðir eða annað foreldrið muni missa af samveru með barninu vegna þess að það hafi ekki efni á því að vera í fæðingarorlofi eins lengi og óskað væri. Lagði hún því til að hámarksupphæðin verði hækkuð til að auka hvata til orlofstöku.
Þórhildur veltir því einnig fyrir sér hvort sanngirni felist í því að konur og karlar fái jafn langt fæðingarorlof í ljósi líffræðilegs munar á körlum og konum „Er það virkilega í anda jafnréttis og jafnræðis að karlar fái jafn langt leyfi og konur, miðað við verkaskiptinguna í barneignum?" spyr hún.