Borgarstjórn vísaði frá tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að Reykjavíkurborg taki upp sveiganleg starfslok, nú þegar sé verið að vinna að slíkri innleiðingaráætlun. Fram kemur í tillögunni að mannauðs- og starfsumhverfissviði verði falið að vinna að útfærslu og innleiðingaráætlun og leggja hana fyrir borgarráð eigi síðar en 1. desember næstkomandi.

Samkvæmt reglum borgarinnar um réttindi og skyldur stjórnenda hjá borginni skal stjórnandi láta af störfum eigi síðar en um næstu mánaðarmót eftir að hann hefur náð 70 ára aldri.

Fram kemur í greinargerð tillögunnar að sífellt fleiri séu við góða heilsu á efri árum þar sem lífaldur fer hækkandi. Núverandi skylda geti átt við um starfsmenn sem hafi góða starfsorku og vilja til að vinna.

„Það eru engin rök fyrir því að skylda fólk sem hefur getu og vilja til að starfa til að hætta,“ sagði Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins. „Það á ekki að refsa fólki fyrir að ná góðum aldri.“

Nú þegar í vinnslu

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, sagði að hún væri í sammála málflutningnum í mörgum atriðum og sagði að málið hefði verið rætt lengi. Sjálfsagt væri að skoða þessi mál, sérstaklega í ljósi þess að ’68 kynslóðin sé nú að verða komin á aldur. Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, kallaði eftir aðkomu stéttarfélaga að vinnu og útfærslu við þetta.

Ellen Jacqueline Calmon, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sagði að búið væri að skipa starfshóp með fulltrúum Reykjavíkurborgar, stéttarfélaga og ráðgjafafulltrúa lífeyrissjóðanna auk Félags eldri borgara. „Reiknað er með að hann muni skila af sér í apríl 2022. Meðal verkefna hópsins er að móta tillögur að breytingum sem svari breyttum þörfum bæði vinnuveitenda og starfsfólks vegna aldurs,“ sagði Ellen. „Því er ekki ástæða til að fela mannauðs- og starfsumhverfissviði að vinna að útfærslu og innleiðingaráætlun í verkefni sem þau eru þegar að vinna.“