„Þetta kemur ekkert á ó­vart, því að þú bólu­setur ekki gegn smiti, þú bólu­setur gegn sjúk­dómi,“ segir Sigur­björg Þor­steins­dóttir, ó­næmis­fræðingur hjá Há­skóla Ís­lands um fréttir gær­dagsins af CO­VID-19 smiti hjá bólu­settum far­þega.

Greint var frá því í gær að far­þegi á Keflavíkurflugvelli hefði á dögunum greinst með kórónu­veiruna í nef­koki. Hann hafði verið bólu­settur gegn CO­VID-19. Í grein banda­ríska vef­miðilsins The At­lantic kemur fram að slík smit ætti ekki að koma neinum á ó­vart. Slíkt sé eðli­legur hluti af öllum bólu­setningum. Sigur­björg segir fréttir þess efnis alls ekki þýða að bólu­efnin virki ekki sem skyldi.

„Þetta er al­gjört grund­vallar­at­riði. Þú bólu­setur gegn sjúk­dómi ekki gegn smiti. Enda geturðu af heil­brigðri skyn­semi í­myndað þér það að ó­næmis­kerfið sem er inni í líkama þínum getur ekki varið þig gegn smiti, gegn veirunni þegar hún kemur inn,“ segir Sigur­björg.

„Þú smitast, en smitast miklu minna. Síðan tekur ó­næmis­kerfið til sinna ráða og fer strax í gang og ef þú ert bólu­settur ertu með ó­næmis­minni, það er að segja ó­næmis­kerfið man eftir þessari veiru og það fer í gang,“ segir Sigur­björg.

Það taki hins­vegar á­kveðinn tíma. „Og á meðan ert þú smitandi. Þú náttúru­lega fram­leiðir miklu miklu minni veiru af því að ó­næmis­kerfið tekur strax til starfa við að farga veirunni. Þannig þú ert ekki nærrum því eins smitandi,“ segir Sigur­björg.

Þau mál eru enn til rann­sóknar. „Því þetta er nýtt og allt í gangi núna,“ segir hún. „En það er á­ríðandi að fólk gerir sér grein fyrir því að þú bólu­setur ekki gegn smiti, þú bólu­setur gegn sjúk­dómi. Þannig að þessir sem koma inn smitaðir, það er að segja bólu­settir og smitaðir, þeir eru ekki með ein­kenni, vegna þess að þeir fá ekki sjúk­dóminn, heldur fá þeir einungis smá­vegis fjölgun á veirunni og eru smitandi, en hafa engin ein­kenni, þannig það er náttúru­lega bara enn­þá verra.“

Þú talar um tíma?

„Já, en þú smitar ekki lengi og þú smitar ekki mikið. Það er bæði styttri tími sem þú smitar og þú smitar minna. Af því að þú ert kominn með ó­næmis­minni, þá tekur það ein­hverja daga, og það er á­byggi­lega komin niður­staða um það hvað það er langur tími, en það eru ein­hverjir dagar“ segir hún.

„Hins­vegar ef þú ert að mynda fyrsta stigs svar, ef ó­næmis­kerfið hefur aldrei séð veiruna, þá tekur það ó­næmis­s­varið meira en viku að fara í gang.“

Sama gildir um þá sem eru með „náttúru­legt ó­næmi“

Að­spurð út í þá sem smituðust snemma í far­aldrinum af veirunni og eru með ó­næmi, segir Sigur­björg að það sama gildi. „Þú ert með ó­næmis­minni, sem er að vísu kannski farið að­eins að dofna, en þú ert enn með það, ég held að ó­næmis­minnið endist bara nokkuð vel í þessum sjúk­dómi,“ segir Sigur­björg.

„Þú getur smitast en þú færð ekki sjúk­dóminn. Af því að ó­næmis­kerfið tekur veiruna í gegn þegar hún kemur inn. Og þetta segir sig svo­lítið sjálft. Hún getur ekki farið að verja þig strax og þú smitast, þú hlýtur að fá veiruna í þig og hún þarf að ná að fjölga sér að­eins til þess að ó­næmis­kerfið grípi til sinna ráða. Og á meðan ertu smitandi.“

Sigur­björg segir þetta gilda og hafa gilt um öll bólu­efni. Þetta þýði ekki að bólu­efnin séu ekki að virka sem skyldi. „Þetta gildir um öll bólu­efni, ekki bara þessi bólu­efni,“ segir hún.

„Hver og einn bólu­efna­fram­leiðandi rann­sakar það nú hversu mikið smitandi þú ert eftir að hafa fengið bólu­efni og það eru töl­fræði­legar niður­stöður sem eru ef­laust í far­vatninu.“