Jón Finnbjörnsson hefur ekki starfað við Landsrétt í tæp tvö ár, þrátt fyrir að hafa verið landsréttardómari frá því rétturinn var settur á laggirnar 1. janúar 2018 og á fullum launum.

„Hann er ekki í leyfi frá störfum eftir minni vitund,“ segir Sigurður Tómas Magnússon, formaður stjórnar dómstólasýslunnar, um stöðu Jóns við réttinn. „Hann er hins vegar ekki að störfum vði réttinn,“ bætir hann við.

Símon hæfari en Jón

Á mánudaginn tekur Símon Sigvaldason, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, til starfa í Landsrétti en dómsmálaráðherra tilkynnti um skipun hans við réttinn í gær. Til að freista þess að fá lögmæta skipun, sótti Jón um hið lausa embætti en Símon var metinn hæfari en hann og hlaut embættið.

Með skipun Símonar verða dómarar við réttinn fimmtán eins og lög gera ráð fyrir. Aðeins fjórtán þeirra eru hins vegar við störf en Jón Finnbjörnsson hefur ekki tekið þátt í hefðbundnum dómstörfum við réttinn frá því fyrri dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu var kveðinn upp í mars 2019.

Var meðal allra neðstu í mati

Jón er einn eftir af fjórum dómurum dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu tekur til. Hann getur því ekki tekið þátt í meðferð mála enda myndu dómar dæmdir af honum ekki teljast dæmdir í samræmi við 6. gr. Mannréttindasáttmálans um réttláta málsmeðferð.

Í aðdraganda fyrstu skipunar dómara við réttinn lenti Jón í 30. sæti af 33 umsækjendum í mati nefndar sem lagði mat á hæfni umsækjenda um embættin fimmtán. Hann fékk 4.325 stig í matinu en fékk samt stöðu við réttinn og var tekinn fram yfir fjóra umsækjendur sem höfðu á bilinu 5,5 til 6,2 stig í matinu.

Hinir þrír fengið nýja skipun

Hinir dómararnir þrír, sem fyrrnefndur dómur MDE tekur til, hafa allir sótt um og fengið ný dómaraembætti sem losnað hafa við réttinn. Ásmundur Helgason var skipaður landsréttardómari að nýju 17. apríl í fyrra, Arnfríður Einarsdóttir 1. júlí og Ragnheiður Bragadóttir 15. september. Jón sótti hins vegar ekki sótt um laus embætti við réttinn fyrr en nú síðast þegar embætti losnaði en var ekki metinn eins hæfur og Símon og hafði því ekki erindi sem erfiði, sem fyrr segir.

Þessi erfiða staða Jóns við Landsrétt skapar tvíþættan vanda. Annars vegar er hann á fullum launum við réttinn án þess að geta tekið þátt í störfum hans. Hins vegar eiga fimmtán dómarar sæti í Landsrétti lögum samkvæmt en nú starfa þar aðeins fjórtán. Heimilt er að setja dómara við réttinn tímabundið, en þó eingöngu ef einhver hinna skipuðu dómara hefur óskað eftir leyfi frá störfum, hvort heldur um er að ræða veikindaleyfi, námsleyfi eða annarskonar leyfi.

Eftir töluvert langa rekistefnu um vanda Landsréttar eftir fyrri dóm MDE, óskuðu dómararnir fjórir sem um ræðir um launað leyfi frá réttinum. Dómstólasýslan féllst á beiðnirnar í nóvember sama ár og voru þeir í leyfi til 1. júlí í fyrra. Þann tíma var hægt að setja aðra dómara tímabundið í þeirra stað.

Ráðherra getur ekki hróflað við Jóni

Eins og fyrr greinir er Jón ekki í slíku leyfi lengur og óvíst hvað nú verður fyrst hann fékk ekki þá lausu stöðu sem hann sótti um við réttinn.

Vegna ákvæðis stjórnarskrárinnar um sjálfstæði dómsvaldsins er hvorki hægt að skikka dómara í leyfi, né leysa þá frá embætti nema með dómi. Dómararnir fjórir hættu að taka þátt í meðferð dómsmála við réttinn þegar fyrri dómur MDE var kveðinn upp í mars í fyrra og í nóvember höfðu allir dómararnir fjórir óskað eftir launuðu leyfi við réttinn um sex mánaða skeið eins og áður sagði.

Fréttablaðið reyndi að ná tali af dómsmálaráðherra við vinnslu fréttarinnar en hún svaraði hvorki síma né fyrirspurnum um málið.