„Það er bara erfitt að horfa á bókina úti í búð. Það er stór and­lits­mynd af manninum, það er ekki nota­legt,“ segir Þor­björg Finn­boga­dóttir, móðir Magnúsar Freys Svein­björns­sonar sem lést eftir hrotta­fengna árás í Hafnar­stræti árið 2002.

Baldur Freyr Einars­son, annar þeirra sem sak­felldur var í málinu, hefur nú gefið út bók, Heimtur úr heljar­greipum, þar sem hann lýsir meðal annars kvöldinu ör­laga­ríka vorið 2002.

Hálfgerður hvítþvottur

Þor­björg er ó­sátt við efni bókarinnar og segir í sam­tali við Frétta­blaðið að um hálf­gerðan hvít­þvott af hálfu Baldurs sé að ræða. Hún segist hafa borið saman kaflann úr bók Baldurs þar sem hann lýsir at­burða­rásinni og borið efni hans saman við niður­stöðu Hæsta­réttar í málinu.

Baldur fékk sex ára fangelsis­dóm í Hæsta­rétti og sam­verka­maður hans, Gunnar Frið­rik Frið­riks­son, fékk þriggja ára dóm. Þor­björg lýsti því á sínum tíma að báðir hefðu átt að fá fullan dóm, 12 ára fangelsi á þeim tíma.

„Það er eins og hann sé að yfir­færa sökina á þolandann,“ segir Þor­björg við Frétta­blaðið og bætir við að í bókinni megi lesa að Magnús hafi ráðist á hann. Það sé tvennt ó­líkt að lesa bókina og dóminn í málinu.

Andvaka í nótt

Þor­björg skrifaði færslu á Face­book í morgun sem vakið hefur tals­verða at­hygli.

„Er búin að vera and­vaka í nótt með mikla sorg í hjarta þar sem morðingi sonar míns er að gefa út bók og lýsir því þegar hann drap son minn. En lýsingin er ekki sönn og þið sem ætlið að lesa þessa bók og styrkja hann þá bendi ég ykkur á að lesa Hæsta­réttar­dóminn. Þá sjáið þið hvað þetta er mikið bull í honum og hann er bara að reyna að hvít­þvo sjálfan sig,“ sagði Þor­björg meðal annars í færslunni.

Að­spurð hvernig henni varð við þegar hún frétti af út­gáfu bókarinnar segist Þor­björg hafa fengið hnút í hjartað.

„Ég sá fyrst á Face­book að hann væri að safna fyrir bókinni. Það hefur gengið vel því bókin var komin út þremur vikum síðar og svo komin í allar búðir. Mér líður ekkert vel með það, ég svaf ekkert í nótt og var búin að skrifa heila bók í hausnum á mér en kom engu frá mér,“ sagði hún við blaða­mann rétt fyrir há­degi.

Í færslunni sagðist hún vera orðin þreytt á þeirri at­hygli sem Baldur Freyr fær því ekki sé hann að hugsa um að­stand­endur og vini Magnúsar Freys sem sakna hans sárt. Það sé sárt að þurfa að horfa á and­lit hans í verslunum og viður­kennir hún hafa hugsað um að taka bækurnar þar sem hún býr og henda þeim í ruslið. „Mér finnst ég vera komin á byrjunar­reit í sorginni,“ sagði hún.