Víkkun á reglum um talþjálfun sem gerð var um áramót hefur aðeins skilað sér að takmörkuðu leyti til að minnka biðlista. Enn þarf að lyfta grettistaki hvað varðar fjölgun í stétt talmeinafræðinga til að börn fái þá þjónustu sem þau eiga rétt á.
Sonur Láru Aradóttur er að verða fjögurra ára gamall og hefur verið á biðlista vel á annað ár. Hann er með alvarlega málþroskaröskun sem hefur áhrif á nám og félagsþroska.
„Sonur okkar er á biðlista hjá öllum talmeinafræðingum á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Lára. „Ég hringdi í eitt fyrirtækið um daginn og þá voru enn þá meira en 400 á undan á biðlista.“ Annað fyrirtæki var að byrja að taka inn börn sem skráð voru á biðlista í kringum áramótin 2019 og 2020.
Lára veit ekki hvenær sonur hennar kemst að. Hann er núna í talþjálfun hjá þroskaþjálfafyrirtæki tvisvar í viku. Það er ekkert niðurgreitt af Sjúkratryggingum og kostar fjölskylduna 100 þúsund krónur á mánuði.
„Hann er að verða fjögurra ára og getur ekki myndað þriggja orða setningar,“ segir Lára sem telur að það vanti gagnagrunn til að hafa yfirsýn yfir þá sem eru á biðlista og forgangsröðun fyrir börn með alvarlegustu tilfellin.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra afnam um áramót skilyrði um tveggja ára starfsreynslu talmeinafræðinga til að komast á samning hjá Sjúkratryggingum. Kristín Theódóra Þórarinsdóttir, formaður Félags talmeinafræðinga, segir að enn sem komið er hafi þetta aðeins haft áhrif á Akureyri þar sem talmeinafræðingar komust á samning. Háskóli Íslands útskrifi 18 manns annað hvort ár og í ár útskrifist fyrsti hópurinn undir hinum nýju reglum.
„Við vissum að breytingin myndi ekki ná að dekka þjónustu allra þeirra barna sem eru að bíða,“ segir Kristín. „Það er almennt stefna sveitarfélaganna að afnema biðlista en það teljum við óraunhæft. Það eru biðlistar alls staðar. Vitaskuld viljum við ekki hafa neinn biðtíma heldur geta sinnt börnum eins fljótt og hægt er.“
Nýlega voru gefnar út niðurstöður Landsráðs um menntun og mönnun í heilbrigðiskerfinu um talmeinaþjónustu. Helsta útkoman var að fjölga þurfi námsstöðum og mögulega bjóða upp á nám árlega. „Talmeinafræði er eftirsótt nám. Það komast færri að en vilja,“ segir Kristín. Fólk hafi samband við félagið til að fá upplýsingar um nám erlendis.
„Hann er að verða fjögurra ára og getur ekki myndað þriggja orða setningar.“
Félag talmeinafræðinga telur að til að minnka biðlistann þurfi yfirvöld að auka verulega fjármagn til námsins. Í dag eru um 140 talmeinafræðingar í félaginu en ekki allir sem sinna talþjálfun á samningi hjá Sjúkratryggingum Íslands.
Nú standa yfir samningaviðræður félagsins við Sjúkratryggingar þar sem ákveðin markmið eru til umræðu, meðal annars forgangsröðun þjónustu og miðlægir biðlistar, eins og áður hefur verið nefnt.
„Það gengur mjög illa að semja. Við köllum eftir meiri skilningi hins opinbera á mikilvægi þjónustunnar,“ segir Kristín. Bæði sveitarfélög og ríki þurfi að sýna viljann í verki og setja málefni barna með málþroskaraskanir í forgrunn.