Víkkun á reglum um tal­þjálfun sem gerð var um ára­mót hefur að­eins skilað sér að tak­mörkuðu leyti til að minnka bið­lista. Enn þarf að lyfta grettis­taki hvað varðar fjölgun í stétt tal­meina­fræðinga til að börn fái þá þjónustu sem þau eiga rétt á.

Sonur Láru Ara­dóttur er að verða fjögurra ára gamall og hefur verið á bið­lista vel á annað ár. Hann er með al­var­lega mál­þroska­röskun sem hefur á­hrif á nám og fé­lags­þroska.

„Sonur okkar er á bið­lista hjá öllum tal­meina­fræðingum á höfuð­borgar­svæðinu,“ segir Lára. „Ég hringdi í eitt fyrir­tækið um daginn og þá voru enn þá meira en 400 á undan á bið­lista.“ Annað fyrir­tæki var að byrja að taka inn börn sem skráð voru á bið­lista í kringum ára­mótin 2019 og 2020.

Lára veit ekki hve­nær sonur hennar kemst að. Hann er núna í tal­þjálfun hjá þroska­þjálfa­fyrir­tæki tvisvar í viku. Það er ekkert niður­greitt af Sjúkra­tryggingum og kostar fjöl­skylduna 100 þúsund krónur á mánuði.

„Hann er að verða fjögurra ára og getur ekki myndað þriggja orða setningar,“ segir Lára sem telur að það vanti gagna­grunn til að hafa yfir­sýn yfir þá sem eru á bið­lista og for­gangs­röðun fyrir börn með al­var­legustu til­fellin.

Aðeins átján talmeinafræðingar útskrifast annað hvert ár sem er hvergi nærri nóg.
Mynd/Háskóli Íslands

Willum Þór Þórs­son heil­brigðis­ráð­herra af­nam um ára­mót skil­yrði um tveggja ára starfs­reynslu tal­meina­fræðinga til að komast á samning hjá Sjúkra­tryggingum. Kristín Theó­dóra Þórarins­dóttir, for­maður Fé­lags tal­meina­fræðinga, segir að enn sem komið er hafi þetta að­eins haft á­hrif á Akur­eyri þar sem tal­meina­fræðingar komust á samning. Há­skóli Ís­lands út­skrifi 18 manns annað hvort ár og í ár út­skrifist fyrsti hópurinn undir hinum nýju reglum.

„Við vissum að breytingin myndi ekki ná að dekka þjónustu allra þeirra barna sem eru að bíða,“ segir Kristín. „Það er al­mennt stefna sveitar­fé­laganna að af­nema bið­lista en það teljum við ó­raun­hæft. Það eru bið­listar alls staðar. Vita­skuld viljum við ekki hafa neinn bið­tíma heldur geta sinnt börnum eins fljótt og hægt er.“

Ný­lega voru gefnar út niður­stöður Lands­ráðs um menntun og mönnun í heil­brigðis­kerfinu um tal­meina­þjónustu. Helsta út­koman var að fjölga þurfi náms­stöðum og mögu­lega bjóða upp á nám ár­lega. „Tal­meina­fræði er eftir­sótt nám. Það komast færri að en vilja,“ segir Kristín. Fólk hafi sam­band við fé­lagið til að fá upp­lýsingar um nám er­lendis.

„Hann er að verða fjögurra ára og getur ekki myndað þriggja orða setningar.“

Fé­lag tal­meina­fræðinga telur að til að minnka bið­listann þurfi yfir­völd að auka veru­lega fjár­magn til námsins. Í dag eru um 140 tal­meina­fræðingar í fé­laginu en ekki allir sem sinna tal­þjálfun á samningi hjá Sjúkra­tryggingum Ís­lands.

Nú standa yfir samninga­við­ræður fé­lagsins við Sjúkra­tryggingar þar sem á­kveðin mark­mið eru til um­ræðu, meðal annars for­gangs­röðun þjónustu og mið­lægir bið­listar, eins og áður hefur verið nefnt.

„Það gengur mjög illa að semja. Við köllum eftir meiri skilningi hins opin­bera á mikil­vægi þjónustunnar,“ segir Kristín. Bæði sveitar­fé­lög og ríki þurfi að sýna viljann í verki og setja mál­efni barna með mál­þroskaraskanir í for­grunn.