Móðir drengs í fyrsta bekk í Breiðagerðisskóla kveðst munu „gera allt vitlaust“ þar til öryggismál við skólann verði lagfærð. Móðir í Háletishverfi hefur svipaða sögu að segja af umferðarmálum nærri skólanum í sínu hverfi.

Arndís Bjarnadóttir, í Bústaðahverfinu, segist hafa verið að fylgja syni sínum í skólann og til þess þurfi þau mæðginin að fara yfir Hæðargarð þar sem bílar fari gjarnan um til að stytta sér leið annað. Það sé í lagi.

„En það er 30 kílómetra hámarkshraði, ekki 50. Gjöra svo vel og virða það. Þetta er íbúagata,“ skrifar Arndís í færslu á Facebooksíðu hverfis 108.

Að sögn Arndísar hefur hún brýnt fyrir syni sínum að bíða við gangbrautir þar til bílarnir stoppi alveg.

„Eitthvað gleymdi hann sér áðan og rétt náði ég að rífa í hann. Því jú, hann ákvað að treysta því að bíll sem nálgaðist myndi stoppa. Sú tætti yfir gangbrautina og með smettið fast á símaskjá. Á bara að bíða eftir því að það verði banaslys eða?“ spyr Arndís í færslu sinni.

Arndís kveðst ekki vilja trúa því að fólk sé „í alvöru svona galið að halda að það sé í lagi að keyra svona?“ skrifar hún og segist vera „að fara að gera allt vitlaust þar til öryggismál þarna verða lagfærð,“ eins og hún orðar það. „Þau sem vilja vera með, endilega. Það virðist því miður ekki vera nóg að höfða til almennrar skynsemi og tillitssemi.“

Stórhættuleg gangbraut við Álftamýrarskóla

Sandra Bernhøj Daðadóttir, sem er jafnframt móðir drengs í fyrsta bekk. segir að undanfarið hafi hún tvisvar sinnum lent í því að keyt sé yfir sig og drenginn er þau ganga í Álftamýrarskóla.

„Nú höfum ég og strákurinn minn í fyrsta bekk tvisvar sinnum á stuttum tíma lent í því á leið í skólann að það sé næstum keyrt yfir okkur þar sem bílar leggja báðum megin við gangbrautina og maður þarf að labba út á gangbraut til að sjá hvort bíll sé að koma,“ skrifar hún.

Sandra segist hafa sett sig í samband við Reykjavíkurborg vegna málsins og tekur fram að borgin sé sammála sér varðandi hættuna sem skapist þarna. Þarna sé á ferðinni „stórhættuleg gangbraut“.

„Ótrúlegt að hann lifði það af“

Færsla Arndísar hefur vakið mikla athygli og viðbrögð í hverfishópnum. Ein kona úr hverfinu merkir Facebooksíðu lögreglunnar inn í þráðinn og biðlar til hennar að taka á málinu.

„Það var keyrt á manninn minn á gangbraut fyrir nokkrum árum síðan. Það var ótrúlegt að hann lifði það af. Heilablæðingar á tveimur stöðum ásamt beinbroti og það var ekki myrkur þegar það gerðist,“ skrifar konan sem síðan segir að ítreka þurfi við börn að fara ekki yfir á gangbraut nema vera viss um að bílar stoppi.  „Ég er mjög vakandi fyrir gangandi vegfarendum, en vá hvað mér hefur fundist extra erfitt að sjá fólk undanfarið á morgnana í myrkrinu og bleytunni.“

Karl í hópnum virðist vera með lausn á vandanum. „Löggan þarf bara að drullast hingað að mæla og sekta fólk í nokkra daga í röð. 5-6 bílar að sekta mörg hundruð ökumenn á einum degi? Hvað ætli að þetta væri fljótt að lagast ef það yrði gert?“ stingur hann upp á og fjölmargir aðrir úr hverfinu leggja síðan orð í belg.