„Það sem þarf að gerast er að þetta fólk fái utanaðkomandi hjálp. Hjálp til að komast í meðferð. Ég hef talað við þetta fólk, það vill hjálp en það treystir sér ekki í meðferð. Það treystir sér ekki nema með hjálp.“ Þetta segir Guðrún Hauksdóttir Schmidt í samtali við Fréttablaðið, en sonur hennar er heimilislaus alkóhólisti.

Guðrún býr í Danmörku, en kom til Íslands fyrir stuttu og heimsótti son sinn, Þorbjörn. Hún greindi frá þessu á Facebook-síðu sinni, og sagði frá því hvernig dagur í lífi sonar hennar er. Að öllu jöfnu hefst dagurinn á bið eftir því að Vínbúðin opni.

Slasaðist á leið í vinnuna

Hún segir að sonur sinn sé heimilislaus, og hafi þróað með sér alkóhólisma eftir að hafa lent í mótorhjólaslysi á leið í vinnu sína fyrir tæplega 30 árum. „Hann hlaut alveg ofboðslega mörg beinbrot og skaddaðist á framheila. Hann var þarna á sjúkrahúsi og í endurhæfingu í tæpt ár,“ segir Guðrún. „Allan þennan tíma er hann á sterkjum verkjalyfjum, og einhvern veginn fer allt niður á við eftir það.“

Hún segir að gera þurfi meira fyrir heimilislaust fólk, og nefnir þar sérstaklega að því sé tryggt þak yfir höfuð og öruggan samastað. „Ég er ekki bara að tala um son minn, heldur er allskonar fólk á götunni. Þetta eru ekki bara alkar, heldur líka geðveikt fólk og fólk sem hefur gefist upp á lífinu,“ segir Guðrún.

Vilja aðstoð

Guðrún segir flest heimilislaust fólk vilji aðstoð, en geti ekki sótt sér hana sjálft. „Það þarf að vera eitthvað ljós. Það þýðir ekki að setja þetta fólk út á götu þegar það kemur úr meðferð. Þetta er veikt fólk sem stenst ekki freistingarnar óstutt.“

Guðrún greinir frá á því á Facebook-síðu sinni að hafa sent borgarstjóra Reykjavíkur bréf, þar sem hún kynnir sig og segir sögu sína. „Ég sagði honum frá minni upplifun og að mér fyndist að það væri kominn tími til að gera eitthvað í þessu. Ég veit að borgin hefur gert fullt, og mest af öllum bæjarfélögum á landinu, en það er bara ekki nóg,“ segir hún.