Að minnsta kosti nítján hafa látið lífið og á annað hundrað slasast í mannskæðum flóðum í suðvesturhluta Íran. Yfirvöld hvatt landsmenn til þess að halda sig heima við þar sem frekari flóð gætu verið í vændum. Ein þeirra borga sem hvað verst hefur orðið úti er borgin Shiraz. 

Mikið úrhelli hefur valdið flóðunum og hafa skemmdir orðið bæði á mannvirkjum og bílum. Spáð er áframhaldandi úrkomu á svæðinu en innanríkisráðuneyti Íran sendi í gær smáskilaboð á stóran hluta landsmanna þar sem þeir voru varaðir við ferðalögum. 

Á þessum tíma árs fagna Íranir nýja árinu og nýta margir tækifærið og ferðast landshluta á milli til þess að halda upp á hátíðina með vinum og ættingjum. 

Þó borgin Shiraz hafi orðið hvað verst úti þá rignir einnig víðar um Íran. Flugferðum til og frá alþjóðaflugvellinum í Tehran hefur annað hvort verið aflýst eða frestað vegna lélegra flugskilyrða.