Banda­rískir rann­sak­endur hafa upp­götvað 119 ný kjarn­orku­skot­byrgi sem eru í smíðum í norð­vestur Kína. Byrgin fundust með gervi­hnattar­myndum en þau eru stað­sett á af­skekktum svæðum vestur og suð­vestur af borginni Yu­men á jaðri Góbí­eyði­merkurinnar. Byrgin eru talin vera til merkis um að Kína sé að styrkja stöðu sína sem kjarn­orku­veldis í al­þjóð­legu sam­hengi. The New York Times greinir frá.

Gervi­hnattar­myndir sýna hring­laga upp­grefti og langa skurði sem virðast vera ætlaðir fyrir sam­skipa- og stjórn­stöðvar og svipar til því sem sést hefur á öðrum kjarn­orku­skot­byrgjum í Kína.

Upp­götvunin mun að öllum líkindum hrinda af stað um­ræðum í Was­hington varðandi fyrir­ætlanir varnar­mála­ráðu­neytis Banda­ríkjanna um að nú­tíma­væða kjarn­orku­vopna­búr Banda­ríkjanna. Þær gætu líka hvatt ríkis­stjórn Joe Bidens til að reyna að draga Kín­verja að samninga­borðinu hvað varðar tak­mörkun kjarn­orku­vopna en hingað til hafa Banda­ríkja­menn að­eins rætt við Rússa um slík mál.

Kínverjar frumsýndu nýja DF-41 kjarnorkuskotflaug á hersýningu í Beijing árið 2019 í tilefni 70 ára afmælis Kínverska Alþýðulýðveldisins.
Fréttablaðið/AFP

Neita að taka þátt í samninga­við­ræðum við kjarn­orku­veldin

„Þessi upp­bygging, hún vekur upp spurningar. Við hvetjum Beijing til að ræða við okkur um raun­hæfar lausnir til að minnka hættuna á því að ýfa upp ó­stöðug­leika,“ sagði tals­maður utan­ríkis­ráðu­neytis Banda­ríkjanna, Ned Price, í sam­tali við blaða­menn.

Kína hefur neitað boði um að taka þátt í samninga­við­ræðum hvað varðar tak­mörkun kjarn­orku­vopna og borið því fyrir sig að kjarn­orku­vopna­búr þeirra sé mun minna heldur en vopna­búr kjarn­orku­veldanna tveggja, Banda­ríkjanna og Rúss­lands. Kín­verjar búa yfir 350 kjarn­orku­vopnum á meðan Banda­ríkja­menn eiga 5500 og Rússar 6255.

Sam­kvæmt nýjustu hernaðar­á­ætlun Kína, sem gefin var út 2019, ætla Kín­verjar að tak­marka kjarn­orku­vopna­búr sitt við það lág­marks­stig sem krafist er fyrir þjóðar­öryggi. Þá hefur Kína heitið því að beita ekki vopnunum gagn­vart þjóðum sem eru ekki kjarn­orku­þjóðir.