Á annað hundrað mótmælenda hafa nú safnast saman á Austurvelli. Mótmælin hófust klukkan hálf fimm og voru á vegum nokkurra ungliðahreyfinga stjórnmálaflokka auk Jæja-hópsins og Gulu vestanna þar sem afsögn Sigríðar Andersen var krafist. 

Klukkan fimm hófust svo mótmæli þar sem aðgerðarleysi stjórnvalda gagnvart málefnum flóttamanna og umsækjenda um alþjóðlega vernd er mótmælt. Þetta eru fimmtu mótmælin sem skipulögð hafa verið af hópi flóttamanna sem flestir dvelja í Ásbrú, þar sem betri aðbúnaðar, auk áheyrn stjórnvalda er krafist.

Sjá einnig: „Þetta er ekkert líf“

Mótmælendur krefjast meðal annars þess að umsækjendur um alþjóðlega vernd hér á landi fái réttinn til að vinna, að brottvísunum verði hætt, jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu og Ásbrú verði lokað. 

Yfirskrift mótmælanna í dag er Kyrrstaða til samstöðu, þar sem aðgerðum lögreglunnar á Austurvelli í gær er mótmælt. Lögregla beitti piparúða gegn mótmælendum í gær og handtók tvo. 

Sjá einnig: Flótta­­fólk mót­­mælir: „Líf okkar eru í húfi“

Á dagskránni í kvöld eru ræðuhöld og kvöldverður, en í dagskrá viðburðarins á Facebook er fólk meðal annars hvatt til að koma með tjöld og teppi. 

„Einu svörin hingað til hafa verið óljós loforð um samtal, auk lögreglukylfunnar og piparúðans.
Sláist með okkur í för og hrópið! Allar manneskjur hafa rétt til lífs!“

Sjá einnig: Sökkva dýpra í depurð ef ekki er gripið inn í

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem hún kveðst hafa þurft að bregðast við með þeim hætti sem hún gerði á mótmælum í gær þar sem mótmælendur hafi óhlýðnast fyrirmælum og framið skemmdarverk.