Það verður á ábyrgð kattaeigenda í Fjallabyggð að framfylgja banni við lausagöngu katta um nætur yfir varptíma fugla sem líklegt er að verði samþykkt á næstunni. „Það er sjálfsagt allur gangur á því hvort þeir hlýði því að koma heim á réttum tíma, en það er þá bara eitthvað sem eigendur verða að hafa í huga,“ sagði Arnar Þór Stefánsson, formaður skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar, í samtali við Fréttablaðið.

Ekki er áætlað að nein viðurlög verði við því að ketti sé leyft að ganga lausum að næturlagi. Aðeins er fyrirhugað að eigendur verði látnir vita að kötturinn þeirra sé úti og hvar hann sé svo þeir geti nálgast hann sjálfir. Arnar telur engu að síður að nægur hvati sé til þess að kattaeigendur fari eftir reglunum. „Ég held að það sé hvati hjá öllum að reyna að halda sínu kattahaldi í sátt og samlyndi við nágranna sína og aðra bæjarbúa. Þetta útgöngubann endurspeglar vilja samfélagsins til að vernda unga og fugla á varptíma. Það er þá að sjálfsögðu sá hvati sem kattaeigendur hafa til að haga útgöngu kattanna þannig að hún sé í samræmi við vilja bæjarins.“

Arnar segir að fylgst hafi verið sérstaklega með lausagöngu katta í Fjallabyggð og að teknar hafi verið saman þær tilkynningar sem bárust. „Bæjarbúar eru duglegir að hringja og tilkynna þetta því í samþykktum sem er verið að breyta er ætlast til þess að það sé tekið tillit til varptíma fugla. Viðbótin er bara takmörkun á útivistartíma yfir þennan tíma.“

Lausaganga katta hefur verið talsvert í umræðunni á sveitastjórnastigi að undanförnu, sérstaklega eftir að tilkynnt var um fyrirhugað bann við lausagöngu katta á Akureyri í fyrra. Því banni var síðar breytt í bann á lausagöngu um nætur. Arnar segir þó að sín upplifun sé sú að umræðan um þetta málefni í Fjallabyggð snúi aðallega að fuglalífinu og minna að öðru ónæði sem kvartað hefur verið yfir í þessu samhengi.

„Það er það spil sem hefur mest verið dregið fram í kvörtunum og í umleitni til að stýra þessu þannig að allir geti verið sáttir. Á Akureyri finnst mér meira hafa verið rætt um almenna umgengni katta á svo mikið fjölbreyttari hátt en viðkemur fuglum. Þar er fólk að kvarta yfir því að þeir séu að koma inn til fólks eða í barnavagna og svo framvegis, þeir eru að skíta í sandkassa og þannig atriði eru dregin fram. Í Fjallabyggð hefur þessi umræða fyrst og fremst snúist um fugla“

Arnar segir að þar sem meira af fólki er á ferli á daginn ætti bann við lausagöngu um nætur að duga til að vernda fuglsungana sem kettir kunna að reyna að veiða. „Á daginn er líklegra að fólk skerist í leikinn ef það sér hvað gerist.“