Hinn 26 ára gamli Amin Ghaysza­deh er í dag á tólfta degi hungur­verk­falls. Með því vill hann mót­mæla yfir­vofandi brott­vísun sinni til Grikk­lands. Líkt og fjöldi annarra hælis­leit­enda, sem hingað koma frá Grikk­landi, neitaði Út­lendinga­stofnun að taka mál Amin til efnis­með­ferðar vegna þess að hann hafði áður hlotið vernd í Grikk­landi.

Amin kærði á­kvörðun Út­lendinga­stofnunar og fékk að vita það þann 11. júlí síðast­liðinn að fyrri á­kvörðun stofnunarinnar hafi verið stað­fest og því allar líkur á því að honum verði vísað úr landi. Eftir að hann fékk endan­lega neitun frá yfir­völdum um dvöl á Ís­landi þann 23. ágúst hóf hann hungur­verk­fall sitt.

„Mér er illt í hjartanu“

Spurður hvers vegna hann á­kvað að fara í hungur­verk­fall segir Amin í sam­tali við Frétta­blaðið að honum hafi ekki liðið eins og hann hafi átt annars úr­kosti en að grípa til slíkra að­gerða. Hann sé hræddur við að vera sendur aftur til Grikk­lands. Þar hafi hann ekki hlotið við­eig­andi að­stoð, ekki getað unnið, eða fundið sér heimili, auk þess sem í­trekað hafi verið ráðist á hann. Amin var í fangelsi í Grikk­landi vegna þess að hann gat ekki sýnt fram á hver hann var með lög­legum skil­ríkjum.

En af hverju hungur­verk­fall?

„Ég vil frekar deyja hér, en að deyja í kjöl­far á­rása í Grikk­landi. Ég glími við and­leg veikindi og hef nokkrum sinnum reynt að taka mitt eigið líf vegna þess að ég hef glímt við alls­konar vanda­mál í lífi mínu,“ segir Amin í sam­tali við Frétta­blaðið í dag.

Hvernig líður þér?

„Mér er illt í hjartanu,“ segir Amin, sem fékk hjarta­á­fall sem táningu og er hungur­verk­fallið honum því sér­stak­lega hættu­legt.

Við­talið við Amin stóð í um 45 mínútur. Á meðan því stóð þurfi hann að taka pásu þrisvar því hann átti erfitt með að hugsa. Hann er mjög fölur, hægur og kaldur. Sem eru allt ein­kenni þess að hafa ekki nærst í svo marga daga.

Einnig hættur að drekka vatn

Þar til í dag drakk Amin vatn, en hann hefur nú ákveðið, í mótmælaskyni að sleppa því líka. Það mun hafa veruleg áhrif á heilsu hans og lífslíkur. Manneskjan er almennt talin geta lifað í allt að 40 til 60 daga án matar, en aðeins nokkra daga án vatn. Það eru því góðar líkur á því að Amin deyi mjög fljótlega fái hann ekki að­stoð.

Spurður hvort hann geri sér grein fyrir því, svarar Amin því játandi og í­trekar þar sem hann áður hefur sagt, að hann vilji frekar deyja hér á Ís­landi en í Grikk­landi.

Þú veist að þú getur dáið fyrr ef þú drekkur ekki vatn?

„Það er ekki mikil­vægt,“ segir Amin.

Viltu lifa?

„Ég vil bara ekki vera sendur aftur til Grikk­lands. Það er það eina sem ég vil,“ segir Amin.

Amin þurfti að taka pásur nokkrum sinnum á meðan viðtalinu stóð.
Fréttablaðið/Anton Brink

Fjöl­skyldan yfir­gaf hann fyrir að sýna kristinni trú á­huga

Amin flúði Íran fyrir um fimm til sex árum síðan eftir að fjöl­skylda hans yfir­gaf hann fyrir að sýna kristinni trú á­huga. Fjöl­skylda hans eru öll múslimar. Amin á­kvað að flýja landið eftir að hafa búið einn þar í tvö ár og eftir að ríkis­stjórnin hafði hótað honum of­beldi eftir að hann talaði gegn þeim. Amin lagði þá af stað í langt ferða­lag, sem endaði með komu hans til Ís­lands. Á leið sinni stoppaði Amin í mörgum löndum, þar á meðal Tyrk­landi, Búlgaríu, Ung­verja­landi, Serbíu og svo Grikk­landi. Þar sem hann var í um tvö ár og neyddist til að sækja um vernd.

„Þegar ég var í Grikk­landi þá var hópur fas­ista þar í fangelsinu sem ég var í sem réðst á mig og vini mína. Þegar ég fór úr fangelsi réðust þeir aftur á mig og sögðu mér að þeir ætluðu að drepa mig. Ég varð að yfir­gefa Grikk­land og kom hingað,“ segir Amin.

Hefur þrisvar reynt að taka eigið líf

And­leg heilsa Amin hefur um langa hríð verið mjög slæm og ein af á­stæðunum fyrir því að hann segist ekki geta snúið aftur til Grikk­lands er að þar fái hann ekki nauð­syn­lega geð­heil­brigðis­þjónustu. And­leg heilsa Amin er svo slæm að hann hefur í það minnsta þrisvar reynt að taka sitt eigið líf. Hann er einnig mjög stressaður og hefur glímt við svefn­erfið­leika. Á­stæður slæmrar and­legrar líðan Amin eru marg­vís­legar en þar skiptir þó ef­laust máli að hann var sem barn beittur kyn­ferðis­legu of­beldi, og fékk, eins og fyrr segir, hjarta­á­fall sem táningur.

Í um­sókn sinni til Út­lendinga­stofnunar hefur Amin í­trekað bent á að vegna slæmrar and­legrar líðan sinnar ætti hann að falla undir þær kröfur sem settar eru fyrir efnis­með­ferð fólk í við­kvæmri stöðu. Stofnunin hefur ekki fallist á það.

Amin hefur sótt með­ferð hér á landi og er að mati sál­fræðings mjög veikur. Amin hefur tekið þeirri með­ferð mjög vel og í um­sókn hans kemur fram að það sé honum afar mikil­vægt að ekki verði rof á þessari með­ferð. Hann var í desember færður á bráða­þjónustu geð­sviðs LSH vegna sjálfs­skaðandi hegðunar en hefur ekki verið metinn af læknum spítalans í bráðri sjálfs­vígs­hættu, heldur með lang­varandi sjálf­skaða­hættu.

At mati kæru­nefndar er Amin talinn hafa sér­þarfir sem taka þarf til­lit til en tekið er fram í úr­skurði þeirra að talið sé að hann geti hlotið við­eig­andi að­stoð í Grikk­landi og er ekki talið að veikindi Amin séu svo mikil og al­var­leg að með­ferð sé að­gengi­leg hér, en ekki í Grikk­landi. Þá er einnig tekið fram í úr­skurði að ekki sé talið að heilsu­far hans sé það sér­stakt að ekki verði litið fram hjá henni.

Amin flúði heimaland sitt, Íran, eftir að fjölskylda hans yfirgaf hann.
Fréttablaðið/Anton Brink

Vill ekki hitta lækni eða sál­fræðing

Amin dvelur á Grens­ás­vegi þar sem hann hefur sitt eigið her­bergi. Að­staðan er í eigu Út­lendinga­stofnunnar og er lokuð og er öllum ó­við­komandi meinaður að­gangur. Amin hefur dvalið á Grens­ás­vegi undan­farna mánuði, en var fyrir það í hús­næði Út­lendinga­stofnunar í Hafnar­firði í sex mánuði.

Full­trúar út­lendinga­stofnunar hafa í þrí­gang heim­sótt Amin eftir að hann hóf hungur­verk­fall sitt. Þau hafa bæði boðið honum að hitta sál­fræðing og lækni, sem hann hefur neitað. Spurður hvort hann telji að hann verði fluttur á spítalann segir Amin að það skipti hann ekki máli, hann muni halda á­fram hungur­verk­fallinu þar.

„Ég á mér enga drauma. Ég get ekki hugsað um annað en bara að fá að vera hér á­fram.“

„Ég mun halda á­fram þar. Ég vil ekki fara til Grikk­lands og vil frekar deyja hér en í Grikk­landi,“ segir Amin, sem tekur þó fram að hann þó að hann sé í hungur­verk­falli, þá vilji hann ekki að líf sitt endi þannig. Honum líði ein­fald­lega eins og hann hafi ekkert annað val.

„Ég er í þessu hungur­verk­falli, en ég vil ekki að þessu ljúki þannig.“

Spurður hvort hann hafi ein­hver skila­boð til al­mennings á Ís­landi segir Amin að það eina sem hann vilji er að fá að vera á­fram á Ís­landi og að hvers kyns stuðningur skipti hann máli.

Verði á­kvörðun Út­lendinga­stofnunar snúið við, áttu þér þá ein­hverja drauma um vinnu eða nám hér á landi?

„Ég á mér enga drauma. Ég get ekki hugsað um annað en bara að fá að vera hér á­fram.“

Spurður í lokin hvort hann vilji bæta ein­hverju við, segir Amin:

„Ég get ekki hugsað meir.“