Að minnsta kosti 99 eru látin auk þess sem fjölmargir hafa verið flutt á spítala í norður-Indlandi eftir að hafa drukkið eitrað áfengi.

Greint er frá því á Guardian að síðustu þrjá daga hafi borist fregnir af dauðsföllunum og að lögreglu gruni að um að þau megi rekja til heimabruggs sem eitrað er með metanóli. Yfirvöld í Indlandi hafa greint frá því að fórnarlömb eitrunarinnar hafi kvartað undan svima og hafi verið flutt á spítala í miklum kvölum.

Í sveitum í Indlandi er algent að fólk drekki ódýrt heimabrugg. Bruggarar bæta oft metanóli í áfengið til að það verði enn sterkara. Neysla metanóls í miklu magni getur valdið blindu, skemmdum á lifri og dauða.

Í einu héraði í norður Indlandi, Uttar Pradesh, hafa 59 látist vegan eitrunar. Í næsta héraði hafa allt að sex látist. Yfirmaður lögreglunnar á svæðinu greindi frá því að 66 bruggarar hafi verið handteknir og sýni tekin af heimabruggi þeirra sem hafa verið send til rannsóknar.

„Við erum að reyna að komast að því hvaðan þetta ólöglega áfengi kemur. Við munum bráðlega [finna] sökudólgana í þessum harmleik,“ sagði Janmejay Khanduri, hátt settur lögreglumaður í lögreglunni í Uttarakhand í Indlandi.

Alls hafa um þrjú þúsund verið handtekin í tengslum við bruggið.

Á hverju ári deyja hundruð í Indlandi eftir neyslu ódýrs áfengis. Árið 2015 dóu 100 manns í fátækrahverfi í Mumbai eftir að hafa drukkið landa.

Af þeim fimm milljörðum lítra sem eru drukkin árlega í Indlandi er talið að 40 prósent séu framleidd ólöglega.

Greint er frá á Guardian.