Að­stand­endur 97 ára konu sem varð úti fyrir utan hjúkrunar­heimili í Col­or­ado í Banda­ríkjunum hafa höfðað mál gegn fé­laginu sem rekur hjúkrunar­heimilið.

Kvöld eitt í febrúar í fyrra gekk konan, Mary Jo Staub, út af hjúkrunar­heimilinu illa áttuð. Að­stand­endur hennar höfðu greitt sér­stak­lega fyrir að starfs­fólk hefði aukið eftir­lit með henni þar sem hún glímdi við minnis­glöp; höfðu þeir á­hyggjur af því að hún myndi fara sér að voða.

Í um­fjöllun CBS kemur fram að Mary hafi gengið út af hjúkrunar­heimilinu um­rætt kvöld í nístings­kulda. Dyrnar sem hún fór út um voru læstar og komst hún ekki aftur inn. Öryggis­mynda­vélar voru við inn­ganginn en alls liðu fimm klukku­stundir frá því Mary fór út og þar til hún fannst látin.

Í stefnu að­stand­enda konunnar kemur fram að Mary hafi gengið út skömmu eftir mið­nætti þann 26. Febrúar í fyrra, einungis klædd í nátt­föt og slopp. Lík hennar fannst klukkan 05:40 morguninn eftir. Í stefnunni kemur fram að Mary hafi verið undir auknu eftir­liti sem fól í sér að starfs­fólk átti að kanna á­stand hennar á nokkurra klukku­stunda fresti.