Hæstiréttur hefur dæmt ríkið til að greiða Jóni Höskuldssyni 8,5 milljónir í skaðabætur og eina milljón í miskabætur vegna þess að þáverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Á Andersen gekk framhjá honum þegar skipað var í fyrsta sinn í Landsrétt haustið 2017. Í öðrum dómi sem einnig var kveðinn upp í dag er skaðabótaskylda ríkisins gagnvart Eiríki Jónssyni viðurkennd.

Með dómum Hæstaréttar í dag er dómum Landsréttar sem kveðnir voru upp í fyrra snúið við en Landsréttur sýknaði íslenska ríkið af bótakyldu í málinu, eftir að fallist var á kröfur þeirra Jóns og Eiríks í héraði.

Brotið gegn andmælarétti

Í dómum Hæstaréttar í dag er vísað til þess að Hæstiréttur hefði áður slegið því föstu að þeir annmarkar hafi verið á málsmeðferð ráðherrans í aðdraganda skipunar dómaranna, að skaðabótaskyldu varðaði úr hendi ríkisins. Að mati Hæstaréttar hafi ekkert komið fram í málinu sem fær þeirri ályktun hnekkt, en hún skiptir máli þegar metið er hvort háttsemi dómsmálaráðherra hafi verið ólögmæt og saknæm.

Þá hafi dómsráðherra í tillögu sinni til Alþingis ákveðið að víkja frá áliti dómnefndarinnar á grundvelli annarra sjónarmiða en þeirra sem nefndin hafði áður reist álit sitt á og því hafi ráðherranum borið samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga að gefa Jóni og Eiríki kost á að koma á framfæri athugasemdum, áður en ráðherrann réð ákvörðun sinni til lykta. Það hafi ráðherra ekki gert og með þvi braut hún gegn andmælarétti Jóns og Eiríks við meðferð málsins.

Sérstakt vægi þrígreiningar ríkisvalds

Í dómum réttarins er sérstaklega vísað til hinnar óskráðu meginreglu íslensks réttar að stjórnvaldi sem skipar í opinbert starf eða embætti beri að velja hæfasta umsækjandann. Hvað dómara varði hafi sú regla verið lögfest sérstaklega.

Hafi ætlun löggjafans við setningu umrædds ákvæðis verið að víkja frá umræddri meginreglu, við skipun dómara í Landsrétt, hefði sú ætlun þurft að koma fram með ótvíræðum hætti í orðum laganna eða lögskýringargögnum. Svo hafi ekki verið.

„Er í því sambandi sérstaklega til þess að líta að við veitingu dómaraembætta tekur ráðherra ekki ákvörðun um veitingu embættis sem lýtur boðvald hans sjálfs, heldur um stöðu sem tilheyrir þeirri grein ríkisvaldsins sem að stjórnlögum fer með eftirlitshlutverk gagnvart öðrum greinum þess og tryggt er sjálfstæði í 1. málslið 61. gr. stjórnarskrárinnar,“ segir í dómi Hæstaréttar.

„Við veitingu dómaraembætta tekur ráðherra ekki ákvörðun um veitingu embættis sem lýtur boðvald hans sjálfs, heldur um stöðu sem tilheyrir þeirri grein ríkisvaldsins sem að stjórnlögum fer með eftirlitshlutverk gagnvart öðrum greinum þess.“

Forsvaranlegt mat hefði tryggt þeim embættin

Að mati Hæstaréttar hafi Jón og Eiríkur leitt að því nægar líkur að ef ráðherra hefði metið umsóknir þeirra með forsvaranlegum hætti, auk samanburðar á hæfni þeirra og annarra umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt, hefði það mat leitt til þess að þeir hefðu verið skipaðir dómarar við réttinn umrætt sinn. Þeir ættu því rétt rétt á skaðabótum.

Eru jóni dæmdar 8,5 milljónir í skaðabætur og ein milljón í miskabætur.

Eiríkur gerði viðurkenningarkröfu en ekki fjárkröfu í sínu máli og samkvæmt dómsorði Hæstaréttar var viðurkennd skaðabótaskylda ríkisins gagnvart honum, vegna þess að hann var ekki skipaður í eitt af 15 embættum dómara við Landsrétt sem auglýst voru laus til umsóknar 10. febrúar 2017.

Málið dæmt vegna fordæmisgildis

Hæstiréttur samþykkti að taka mál Eiríks Jónssonar og Jóns Höskuldssonar til skoðunar eftir að Landsréttur sýknaði ríkið af bótakröfum í fyrra og snéri með því við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 25. október 2018, sem dæmt hafði Jóni fimm milljónir í bætur viðurkenndi bótarétt Eiríks.

Í beðnum þeirra Eiríks og Jóns til Hæstaréttar var byggt á því að mál þeirra hafi verulegt almennt gildi en í því reyni á embættisfærslu ráðherra, meðferð opinbers valds, saknæmismælikvarða sem styðjast beri við, orsakasamhengi og sönnun tjóns. Niðurstaða Landsréttar hafi verið bersýnilega röng enda fæli hún í sér að ráðherra geti með fulltingi meirihluta Alþingis skipað hvaða umsækjanda sem er úr hópi þeirra sem uppfylli almenn hæfisskilyrði, algjörlega óháð hæfni umsækjendanna og án þess að hæfasti umsækjandinn eigi nokkurn möguleika á bótum fyrir fjártjón sitt.

Þá gangi ekki upp í dóminum að viðurkenna að ráðherra hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi við tillögugerð sína, en fullyrða síðan að leyfisbeiðandi hafi ekki sannað orsakasamband, þar sem ráðherra hafi getað gert tillögu um hvaða umsækjanda sem var, svo fremi sem hann fengi slíka tillögu samþykkta af Alþingi.

Í ákvörðun Hæstiréttar um málskotsleyfið var fallist á að úrslit málsins geti haft fordæmisgildi um atriði sem beiðnirnar eru reistar á og voru þær því samþykktar.

Þriggja ára málaferlum lokið

Jón og Eiríkur hafa staðið í málaferlum við íslenska ríkið frá árinu 2018 vegna skipunar dómara við Landsrétt. Þeir voru meðal umsækjenda um dómaraembætti við réttinn þegar hann var settur á laggirnar og höfðuðu mál gegn ríkinu eftir að skipað var í embættin. Krafðist Jón tæplega 23 milljóna í skaðabætur en Eiríkur gerði kröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu ríkisins en hvorugur þeirra var í hópi þeirra sem skipaðir voru dómarar við Landsrétt þegar hann var settur á stofn.

Landsréttarmálið er meðal umdeildustu mála í íslensku samfélagi á síðustu árum bæði lögfræðilega og pólitískt. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur þegar kveðið upp fordæmsigefandi dóm þess efnis að réttlát málsmeðferð sé ekki tryggð ef skipun dómara hafi ekki verið í samræmi við lög.