Ný könnun Gallup sýnir að 77 prósent lands­manna bera mikið traust til heil­brigðis­kerfisins og hefur það ekki mælst meira í þau 20 ár sem mælingarnar taka til. Um 92 prósent lands­manna eru á­nægðir með sótt­varna­að­gerðir stjórn­valda sam­kvæmt sömu könnun.

Í til­kynningu frá heil­brigðis­ráðu­neytinu segir að í saman­burði við aðrar stofnanir og em­bætti er heil­brigðis­kerfið í þriðja sæti þeirra sem njóta mest trausts, á eftir Land­helgis­gæslunni og em­bætti for­seta Ís­lands.

Traust fólks til heil­brigðis­kerfisins er nánast jafn­mikið, hvort sem það býr á höfuð­borgar­svæðinu eða á lands­byggðinni.

Bú­seta

Traust til heil­brigðis­kerfisins mældist minnst árið 2016, eða 46 prósent, og hefur síðan þá aukist ár frá ári og mælist nú 77 prósent. Spurt var í könnuninni um traust fólks til heil­brigðis­kerfisins eftir bú­setu.

Niður­staðan sýnir að 78 prósent íbúa Reykja­víkur bera traust til heil­brigðis­kerfisins, hlut­fallið er 75 prósent hjá í­búum ná­granna­sveitar­fé­laga Reykja­víkur en 78 prósent hjá í­búum annarra sveitar­fé­laga.

Kyn og aldur

Alls bera 80 prósent karla mikið traust til heil­brigðis­kerfisins, sem er meira en konur. En ef litið er til aldurs­hópa þá ber fólk á aldrinum 35 til 44 ára mest traust til heil­brigðis­kerfisins, 83 prósent, og næst­mest er traustið í aldurs­hópnum 65 ára og eldri, eða alls 80 prósent.

92 prósent lands­manna á­nægðir með sótt­varna­að­gerðir stjórn­valda

Spurt var um af­stöðu fólks til sótt­varna­að­gerða stjórn­valda vegna CO­VID-19. Alls eru 92 prósent lands­manna á­nægð með að­gerðirnar. Þrjú prósent segjast hvorki né en fjögur prósent segjast ó­á­nægð með að­gerðirnar.

Konur (96%) eru á­nægðari með sótt­varna­að­gerðir en karlar (87%). Lítill munur er á af­stöðu til sótt­varna­ráð­stafana eftir bú­setu. Þeir sem mælast full­kom­lega á­nægðir, mjög á­nægðir eða frekar á­nægðir eru saman­lagt 92 prósent, og er það sama niður­staðan hvort sem litið er til Reykja­víkur, ná­granna­sveitar­fé­laganna eða annarra sveitar­fé­laga á lands­byggðinni.

Land­spítali og em­bætti land­læknis

Í könnuninni var spurt um traust fólks til Land­spítala og em­bættis land­læknis. Gögn um þetta fyrir Land­spítala eru til frá árinu 2017. Þá mældist traust til spítalans 64 prósent en mælist nú 79 prósent. Gögn um em­bætti land­læknis ná til þriggja ára. Traust til em­bættisins mældist 75 prósent árið 2019 en mælist nú 87 prósent.

Könnun Gallup var net­könnun og fór fram á tíma­bilinu 14. janúar til 15 febrúar. Úr­takið var um 6.350 manns af landinu öllu 18 ára og eldri. Svar­hlut­fall var 52,6 prósent.