Jarðskjálftahrinan á Reykjanesskaga sem hófst í gær hélt áfram í nótt en að sögn Bjarka Friis, náttúruvásérfræðings hjá Veðurstofu Íslands, hafa um 900 skjálftar mælst á svæðinu frá því um miðnætti.

Af þeim skjálftum voru á annan tug yfir 3 að stærð en stærstu skjálftarnir voru 4,6 klukkan 05:46 og 4,3 klukkan 06:23. „Svo eru líklegast einhverjir fleiri sem við höfum ekki komist í gegnum enn þá en við komumst ekki í gegnum þetta allt í dag, við reynum bara að fara í gegnum stærstu,“ segir Bjarki í samtali við Fréttablaðið.

Líkt og Fréttablaðið greindi frá í gærkvöldi mældist skjálfti af stærðinni 5,0 klukkan 23:36 skammt frá Fagradalsfjalli en að sögn Bjarka fannst sá skjálfti út um allt suðvesturhorn landsins, til að mynda í Vestmannaeyjum, Vík í Mýrdal og Borgarnesi.

Engin merki um gosóróa

Síðastliðinn sólarhring hafa um 1500 jarðskjálftar orðið á svæðinu en flestir skjálftarnir sem mældust í nótt áttu upptök sín nálægt Fagradalsfjalli. „Það má búast við fjölda eftirskjálfta þegar það koma svona stórir skjálftar, eins og þessi sem að kom í gærkvöldi og svo auðvitað þessir stóru sem bættust við í morgun,“ segir Bjarki.

„Það hafa um 500 tilkynningar um að skjálfti hafi fundist komið inn á vefsíðu Veðurstofunnar og það er eflaust mjög óþæginlegt að vera í Grindavík og Keflavík,“ segir Bjarki en enn sem komið er hafa engar tilkynningar borist um tjón vegna skjálftanna.

Þrátt fyrir mikla skjálfta eru engin merki um gosóróa. „Þetta er bara hluti af þessari jarðskjálftahrinu sem hefur staðið yfir frá því í febrúar á þessu svæði,“ segir Bjarki en virknin hefur haldist í kringum Þorbjörn í Grindavík.

Fréttin hefur verið uppfærð.