Sam­tals verður um 900 milljónum króna varið úr ríkis­sjóði á árinu vegna bólu­efnis gegn CO­VID-19. Fimm hundruð milljónir fara til sam­starfs­verk­efnis um bólu­efni og þá verður 400 milljónum króna varið til kaupa á bólu­efni gegn CO­VID-19.

Þetta kemur fram í frum­varpi fjár­mála­ráð­herra til fjár­auka­laga sem lagt var fram á Al­þingi í kvöld.

Í frum­varpinu kemur fram að talið sé að ein­staklingar þurfi tvo skammta af bólu­efninu. Gera þarf því ráð fyrir að þörfin fyrir bólu­efni á Ís­landi, ef miðað er við að bólu­setja þurfi 75 prósent þjóðarinnar með tveimur skömmtum, sé um 550.000 skammtar af bólu­efni. Búist er við að hver skammtur muni kosta um 4 evrur, 645 krónur, en við það bætist flutnings­kostnaður og önnur gjöld.

500 milljóna kostnaðurinn vegna al­þjóð­legrar þróunar­sam­vinnu skýrist af til­lögu um fram­lag Ís­lands til þróunar og dreifingar bólu­efnis við CO­VID-19 til þróunar­ríkja. Á­kvörðun um þetta var tekin af ríkis­stjórninni í sumar.

Bent er á að Ís­land hafi líkt og ná­granna­ríkin, þar með talin Norður­löndin, Bret­land og Þýska­land, talað fyrir mikil­vægi al­þjóð­legrar sam­vinnu um þróun bólu­efnis. Þá hafi verið talað fyrir jöfnu að­gengi ríkja óháð greiðslu­getu þeirra með það að leiðar­ljósi að tryggja öllum jarðar­búum að­gengi að bólu­efni. 250 milljónum er varið til þróunar bólu­efna en hinum 250 milljónunum til Al­þjóða­ó­næmis­að­gerða­hópsins sem sér um for­kaups­rétt og dreifingu bólu­efnis til þróunar­ríkja.