Í morgun fengu um 90 þúsund Svíar frá Malmö dularfullt sms-skeyti frá sama númerinu. Skilaboðin voru „Magnus test“ og reyndist þau vera frá hreinsistöðinni VA Syd sem sér um skólpmál í borginni.

Ótalmargir furðuðu sig á skilaboðunum og veltu fyrir sér hver þessi Magnús kauði væri og hvers konar próf væri um að ræða. Magnus test fór fljótlega að „trenda“ á samfélagsmiðlinum Twitter og byrjuðu þá fjölmiðlar í Svíþjóð að rannsaka málið.

„Þetta var fyrirhugað próf sem við gleymdum að átti að eiga sér stað í morgun. Svo þetta var í raun bara mannleg mistök,“ sagði Anna Waldorf forsvarsmaður hreinstöðvarinnar VA Syd í samtali við Expressen.

„Flestum þótti þetta fyndið og óskuðu Magnúsi góðs gengis. Aðrir héldu því fram að einhver mikill leyndardómur hafi legið að baki skilboðanna, en flestir tóku þessu vel.“

Fyrirtækið áttaði sig á mistökunum þegar þjónustuverið gjörsamlega sprakk í loft upp rétt eftir klukkan átta í morgun en fjölmargir áhyggjufullur íbúar vildu reyna að komast til botns í málinu.

Íbúum Malmö sé þó óhætt að hunsa skilaboðin.