Fækkun gesta í þjóð­garði Snæ­fells­jökuls í októ­ber milli ára er um 90 prósent. Síðasta mánuð hafa að meðal­tali níu manns gengið Sax­hól í þjóð­garðinum á dag.

Í til­kynningu Um­hverfis­stofnunar í liðinni viku eru birtar tölur úr göngu­t­eljara sem var settur upp við stál­stiga sem liggur upp á Sax­hól í þjóð­garðinum þann 18. októ­ber síðast­liðinn. Fyrsta mánuðinn, til 18. nóvember, gengu 265 gestir á topp gígsins sam­kvæmt teljaranum. Það eru níu gestir á dag.

Um­hverfis­stofnun segir fá­mennið til marks um þá miklu fækkun sem orðið hefur á gesta­að­sókn í þjóð­garðinn allan í ár vegna heims­far­aldursins. Tæp­lega 90 prósent færri heim­sóttu þjóð­garðinn í októ­ber í ár en í sama mánuði í fyrra.

Saxhóllinn fagri í þjóðgarði Snæfellsjökuls.

Rúm­lega 29 þúsund heim­sóttu hann á tíma­bilinu í fyrra en gestirnir þennan mánuð í ár voru ekki nema rétt rúm­lega þrjú þúsund.

Stofnunin segir flesta ganga á topp Sax­hóls um helgar. Frá 18. októ­ber til 18. nóvember hafi 1.800 manns heim­sótt þjóð­garðinn en 265 þeirra gengið á toppinn, sem gera 15 prósent allra gesta garðsins.

Byggja útsýnispall


Úr­bætur við Sax­hól hafa verið í gangi í þjóð­garðinum; bíla­stæði við hann var endur­bætt og stækkað í sumar og vegurinn að því lag­færður. Beðið er nú eftir rétta veðrinu til að leggja klæðningu á veginn og stæðið. Út­sýnis­pallur verður svo byggður á toppinum á næstunni, vonandi fyrir lok árs að sögn Jóns Björns­sonar þjóð­garð­svarðar.

Hann segir einnig spennandi að fylgjast með tölum nýja teljarans á komandi árum.