Einungis 41 flugliði heldur áfram starfi sínu hjá Icelandair í 34 stöðugildum til að sinna örfáum verkefnum innan Icelandair. Það þýður að 897 flugliðar fá uppsagnarbréf í dag.

Flugfélagið tilkynnti í dag að rúmlega tvö þúsund starfsmönnum Icelandair verði sagt upp um næstu mánaðamót. Um er að ræða hluta af yfirgripsmiklum aðgerðum sem stjórnendur félagsins grípa til að bregðast við erfiðri stöðu vegna COVID-19. Margir þeirra sem missa vinnuna hafa starfað hjá Icelandair í rúman áratug og sumir jafnvel í um 30 ár.

Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs, sat fyrir svörum flugliða á fjarfundi í dag en tæplega 600 starfsmenn fylgdust með.

„Vonandi eru þetta aðgerðir sem við getum einhvern tímann dregið til baka,“ sagði Jens á fundinum.

Uppsagnir eru í starfsmannaaldursröð. Undanskildir eru þeir sem sinna trúnaðarstörfum. Þegar kemur að endurráðningum verður einnig farið eftir starfsaldri og frammistöðu starfsmanna eins og kveður á um í kjarasamningum.

Uppsagnarfrestur verður greiddur upp 100 prósent eða samkvæmt sama starfshlutfalli og áður en kom til lækkunar starfshlutfalls síðastliðinn mars. Ríkissjóður mun greiða 85 prósent af uppsagnarfresti og Icelandair restina.

Mikill samhugur er á milli starfsmanna Icelandair og lýstu margir yfir þakklæti yfir góðu upplýsingaflæði hjá félaginu.