Alls greindust 86 innanlandssmit í gær en af þeim voru 62 í sóttkví við greiningu, eða 72 prósent. Ekki hafa jafn margir greinst með veiruna hér á landi í rúmlega tvær vikur. Um er að ræða töluverða fjölgun frá því í gær þegar 59 manns greindust með veiruna.

Alls eru 1.062 manns í einangrun með virkt smit á landinu. Í sóttkví eru nú 1.667 manns sem gera tölvert færri en í gær þegar 2.283 voru skráðir í sóttkví.

Á sjötta tug á sjúkrahúsi

58 sjúklingar liggja nú inni á Landspítala vegna Covid-19 og hafa aldrei fleiri verið inniliggjandi á spítalanum vegna sjúkdómsins. Einn þeirra er á gjörgæsludeild í öndunarvél.

Landspítalinn hefur starfað á neyðarstigi síðustu daga og virðist ekkert lát vera á innlögnum. 120 sjúklingar hafa nú verið lagðir inn á spítalann vegna COVID-19 í þriðju bylgju faraldursins.

21 einstaklingur greindist við landamæraskimun en þar af greindust tíu með virkt smit við seinni landamæraskimun. Beðið er eftir mótefnamælingu úr tíu sýnum.