Nú hafa alls 119 andlát vegna Covid-19 verið tilkynnt til sóttvarnalæknis frá upphafi faraldursins í mars 2020. Af þeim voru 82 andlát á þessu ári, átta á síðasta ári og 29 árið 2020. 101 andlátanna voru einstaklingar 70 ára eða eldri, 85 prósent allra andláta vegna Covid-19.
Þetta kemur fram í pistli sóttvarnalæknis á vef embættis landlæknis. Fjöldi andláta sem birtur er á covid.is er háður tilkynningum lækna og stofnanna um andlát þar sem Covid-19 var orsök eða meðverkandi þáttur í dauðsfalli.
Í lok febrúar síðastliðinn sendu sóttvarnalæknir og landlæknis leiðbeiningar til samræmingar á skilgreiningu dauðsfalla vegna Covid-19.
Samkvæmt því sem kemur fram í pistlinum kom 61 tilkynning um andlát frá Landspítala og 40 frá hjúkrunarheimilum. Tilkynningar hófu fyrst að berast frá hjúkrunarheimilum í lok febrúar síðastliðinn en fram að því höfðu tilkynningar aðeins borist frá sjúkrastofnunum.
Ekki marktæk aukning að meðaltali
Þegar skoðað er hversu mörg dauðsföll eiga sér stað og sá fjöldi borinn saman við fjölda dauðsfalla undanfarinna ára er hægt að skoða umframdauðsföll, sem getur varpað ljósi á raunveruleg áhrif faraldursins.
„Lönd Norður Evrópu hafa almennt færri umframdauðsföll en önnur Evrópulönd,“ segir í pistlinum. „Sérstaka athygli vekur hversu fá umframsdauðsföll hafa verið á Norðurlöndunum nema í Svíþjóð.“
Samkvæmt pistlinum er ekki tölfræðilega marktækur munur á dauðsföllum milli ára fyrir og á meðan á faraldrinum stóð, þrátt fyrir nokkra aukningu andláta í mars 2022. Einungis er að finna marktæka fjölgun andláta hjá einstaklingum 70 ára og eldri í mars 2022.
„Líklega má skýra þessa fjölgun andláta af mikilli útbreiðslu COVID-19 á þessum tíma,“ segir í pistlinum. „Athyglisvert er að marktæk fækkun andláta hjá 70 ára og eldri sást hins vegar í júní til september 2020 og í janúar til mars auk september og október 2021. Þessi marktæka fækkun skýrist vafalaust af þeim sóttvarnaaðgerðum sem þá voru í gildi sem drógu verulega úr sýkingum almennt.“


Á myndunum hér að ofan má sjá samanburð á fjölda dauðsfalla, óháð orsökum. Á fyrri myndinni eru öll andlát óháð aldri en á seinni myndinni eru andlát hjá einstaklingum 70 ára og eldri. Á báðum myndum má sjá andlát undanfarinna þriggja ára borin saman við meðaltal áranna 2012--2019.